Hlynur Geir Hjartarson, GOS. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 11. 2012 | 15:45

Hlynur Geir efstur á stigalistanum – Viðtal

Hlynur Geir Hjartarson, framkvæmdastjóri GOS er efstur á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar í karlaflokki nú þegar 2 mótum er lokið.  Hann varð í 2. sæti, 1 höggi á eftir Þórði Rafni Gissurarsyni, sem sigraði á Egils Gull mótinu úti í Eyjum, nú um helgina. Hlynur Geir átti besta skorið 65 glæsihögg á mótinu, en hann fékk 6 fugla og 1 skolla.  Í 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar, sem fór fram í Leirunni, Örninn Golfverslun varð Hlynur Geir í 3. sæti. Hlynur svaraði nokkrum spurningum Golf 1 :

Golf 1: Þriðja sætið í Leirunni og 2. sætið núna – þú ert efstur á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar en samt… í fullu starfi sem framkvæmdastjóri og golfkennari – nærðu nokkuð æfa og spila? Hvernig ferðu eiginlega að þessu? Hverju þakkar þú þennan góða árangur?

Hlynur Geir: Það er mjög góð spurning. Ég kann bara orðið golf. Ég næ að spila svolítið, en kemst ekki til að æfa eins mikið og áður.  Ég nýt þess meira að spila og fá frí frá öðru t.d. símanum. Svo hjálpar líka að ég er bara hæfilega stressaður og spenntur.

Golf 1: Þú varst á 65 höggum, sem var besta skor Egils Gull mótsins er þetta besta skorið þitt?

Hlynur Geir: Já, þetta er besta skorið mitt á Eimskipsmótaröðinni. Lægsta skorið mitt er hins vegar 64 högg á Svarfhólsvelli, sem var vallarmet og ég setti fyrir rúmri viku.  (Innskot: Hlynur Geir fékk 1 örn, 5 fugla, 11 pör og 1 skolla á hringnum góða, 2.júní 2012, þegar hann setti vallarmetið glæsilega upp á 64 högg Eins fékk hann 39 punkta.  Hann bætti fyrra vallarmet, Gríms Arnarsonar um 1 högg.  Vallarmetið setti Hlynur Geir í keppni milli GOS og félaga í starfsmannaklúbbi Landsbankans, en mótið var lokað.)

Golf 1: Nú ertu á besta skorinu í Egils Gull mótinu – hvað var það í leik þínum sem gekk upp?

Hlynur Geir: Ég hitti 14 flatir og var með 26 pútt – það voru klárlega púttin.  Hins vegar missti ég líka nokkur pútt t.d. munaði litlu að þau dyttu á 12. og 13. flöt og eins var það bara 1/2 cm frá því að detta á 15. flöt.

Golf 1: Hversu mikil áhrif hafði vindurinná leik þinn? 

Hlynur Geir: Hann hafði áhrif sérstaklega á fyrri degi. Þá var maður farinn að gera ráð fyrir honum í 5-10 metra púttum.

Golf 1: Ætlar þú að taka þátt í næsta móti á Eimskipsmótaröðinni (Íslandsmótinu í holukeppni)?

Hlynur Geir: Já, ég býst við því – ég stefni á það.