Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 11. 2013 | 14:00

Heimslistinn: Sterne kominn upp í 55. sætið

Eftir sigur sinn í gær á móti vikunnar á Evrópumótaröðinni, Joburg Open, er Richard Sterne kominn upp í 55. sæti heimslistans.

Þetta þýðir að Sterne hlýtur þátttökurétt í WGC-Accenture Match Play Championship þ.e. heimsmótinu í holukeppni, sem fram fer í næstu viku, en aðeins 64 efstu af heimslistanum hafa þátttökurétt og verður hann einn af 36 af Evrópumótaröðinni, sem þátt taka.

Það leit nú ekkert of vel út fyrir Sterne í byrjun árs, þá var hann nr. 165 á heimslistanum, en eftir að hafa náð 2. sætinu á eftir Stephen Gallacher á Omega Dubai Desert Classic mótinu fór hann upp í 94. sæti heimslistans og með sigrinum í gær í 55. sætið.

Sterne verður einn af 9 sem spila á heimsmótinu í holukeppni í fyrsta sinn. Hinir eru: Jamie Donaldson (nr. 30 á heimslistanum), Thorbjørn Olesen (nr. 40 á heimslistanum), David Lynn (nr. 51), Marcus Fraser (nr. 53), Stephen Gallacher (nr.57) Richie Ramsay (nr. 61),Marcel Siem (nr. 63) og Shane Lowry (nr. 65 – Phil Mickelson tekur ekki þátt og Lowry tekur sæti hans).

Á toppi heimslistans er helsta hreyfingin sú að Brandt Snedeker fer úr 6. sætinu sem hann var í, í 4. sætið eftir sigurinn á Pebble Beach.

Til þess að sjá heimslistann í heild SMELLIÐ HÉR: