Haukur Örn Birgisson, varaforseti GSÍ. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 23. 2013 | 17:00

Haukur Örn Birgisson nýr forseti GSÍ

Haukur Örn Birgisson var nú rétt í þessu kjörinn forseti GSÍ, á Golfþingi Golfsambands Íslands.

Jón Ásgeir Eyjólfsson, fv. forseti GSÍ, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Þetta er í fyrsta sinn sem kosið er um forseta GSÍ, en Margeir Vilhjálmsson, fv. framkvæmdastjóri GR ákvað að gefa kost á sér í forsetastól gegn varaforsetanum, Hauki Erni.

Haukur Örn hlaut 121 atkvæði á móti 29 atkvæðum Margeirs, 1 atkvæði var autt og 1 atkvæði ógilt.

Haukur Örn er 34 ára hæstaréttarlögmaður sem starfar hjá Íslensku Lögfræðistofunni í Turninum við Smáratorg, í Kópavogi.  Hann hefir verið í stjórn GSÍ s.l. 8 ár og þar áður starfaði hann sem almennur starfsmaður GSÍ í 4 ár. Haukur Örn er kvæntur og á 2 börn.   Sjá má nýlegt viðtal við nýkjörinn forseta GSÍ Hauk Örn Birgisson með því að SMELLA HÉR: 

Samhliða forsetakosningu fór fram kosning til stjórnar GSÍ en stjórnarmenn næstu 2 árin eru:  Bergsteinn Hjörleifsson, GK;  Bergþóra Sigmundsdóttir, GKG;  Eggert Ágúst Sverrisson, GR; Gylfi Kristinsson, GS; Kristín Guðmundsdóttir, GÖ og Rósa Jónsdóttir, GÓ.

Athygli vekur að þetta er mesti fjöldi í kvenna í stjórn GSÍ frá upphafi.

Nýir í stjórn eru Bergsteinn Hjörleifsson, GK, Kristín Guðmundsdóttir, GÖ og Rósa Jónsdóttir, GÓ, en sú síðastgreinda hefir verið í varastjórn GSÍ undanfarin 2 ár.

Kristín Magnúsdóttir, GR, fv. ritari stjórnar, sem setið hefir óslitið í stjórn GSÍ undanfarin 12 ár og Guðmundur Friðrik Sigurðsson, GK nefndarmaður, sem einnig hefir setið  í stjórn GSÍ undanfarin 12 ár gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.