Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 3. 2014 | 12:00

Harrington vill verða varafyrirliði

Pádraig Harrington snæddi nýlega með Paul McGinley á heimili þess síðarnefnda í Sunningdale og var ýmislegt til umræðu en hvorugur minntist að sögn nokkuð á stöðu varafyrirliða Ryder Cup liðs Evrópu.

„Hann myndi aldrei minnast á það  að fyrra bragði og ég myndi aldrei gera það heldur,“ sagði Harrington. „Hvað sem öðru líður, kýs ég fremur að hann sé algerlega hlutlaus þegar kemur að því að velja í  varafyrirliðastöðu Ryder bikars liðs Evrópu.“

Aðspurður hvort Harrington myndi þiggja stöðuna ef hún stæði honum til boða svaraði hann já og það án nokkurs hiks.

„Það er ekki nokkur vafi að ég myndi ekki neita henni og ég vonast til þess að vera Ryders bikars fyrirliði dag einn og ég lít á það að vera varafyrirliði sem hluta af lærdómsferlinu fyrir það.“

„Hann er þegar kominn með írskan varafyrirliða (Des Smyth); hann er þegar kominn með skoskan varafyrirliða (Sam Torrance).  Hann á eftir að velja tvo aðra og það er ljóst að a.m.k. annar þeirra verður að vera frá Meginlandi Evrópu.  Ég myndi ekki vilja leggja pressu á hann,“ sagði Harrington, sem blóðlangar í varafyrirliðastöðuna.