Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 18. 2013 | 19:45

Hanson og Oosthuizen úr keppni vegna meiðsla

Louis Oosthuizen, meistari Opna breska 2010 varð að draga sig úr keppni á Opna breska í dag, vegna meiðsla í hálsi og hnakka meðan Svíinn Peter Hanson dró sig úr mótinu eftir aðeins 5 holur vegna bakmeiðsla.

Peter Hanson dró sig úr Opna breska í dag vegna bakmeiðsla

Peter Hanson dró sig úr Opna breska í dag vegna bakmeiðsla

Hanson hefir átt við bakmeiðsli að stríða frá því í maí og hann var sá eini af sigurliði Evrópu í Ryder Cup 2012 til þess að missa af BMW PGA Championship í Wentworth vegna þessa.

Hanson sagði fyrir mót að hann væri aðeins 50% í lagi en hann ákvað að reyna að tía upp eftir að hafa tekið sér frí… og kom þar með í veg fyrir að Hollendingurinn Joost Luiten fengi sæti hans á Opna breska, en hann var næstur inn.

Oosthuizen var kominn á 4 yfir par eftir 8 holur, en hann var í ráshóp með sjálfum nr. 1 á heimslistanum Tiger Woods og Graeme McDowell og virtist eiga í vandræðum með að ganga milli högga og teiga og ákvað að nóg væri komið eftir 9. holu.

Búist er við að Oosthuizen verði nú frá keppni allt fram að því að PGA Championship  risamótið hefst í næsta mánuði.

„Ég er biturlega vonsvikin yfir að hafa þurft að draga mig úr Opna breska og það virðist líklegt að ég verði að taka mér frí og hvíla hnakkann eins og mér hefir verið sagt,“ sagði Oosthuizen í dag.

„Ég hélt að þetta myndi verða í lagi og ég hitaði vel upp á æfingasvæðinu en eftir að leið á hringinn og verkurinn í hnakka og háls magnaðist og leiddi niður í mjaðmir fannst mér sífellt erfiðara að ganga milli teiga.“

„Opna breska hefir svo mikla þýðingu fyrir mig og að þurfa að draga mig úr móti með þessum hætti veldur mér verulegum vonbrigðum eftir að hafa þurft að hætta keppni á Merion líka.“