Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 8. 2012 | 10:00

Hámarksverðmæti vinninga áhugamanna í golfi 2012

Áhugamennskunefnd GSÍ hefur ákveðið að hámarksverðmæti vinninga, sem áhugamenn í golfi mega veita viðtöku árið 2012, skuli vera eftirfarandi. Samanlagt verðmæti vinninga, sem einstakur keppandi veitir viðtöku í sama golfmóti, má nema allt að kr. 105.000, en allt að kr. 150.000, ef um ferðavinninga er að ræða.

Öll verðlaun, sem keppandi kann að vinna til í sama móti, eða mótasamfellu, verða samanlagt að rúmast innan þessara marka. Þar með teljast verðlaun fyrir lengsta upphafshögg, næst holu, verðlaun skv. útdrætti úr skorkortum o.s.frv.

Undantekning er ný og breytt regla um verðlaun fyrir að fara holu í höggi við að leika golfhring. Þau má nú greiða út í peningum og engar takmarkanir eru á upphæð þeirra. Að vanda er miðað við smásöluverðmæti vinninga og óheimilt er að greiða þau út í peningum, ávísun á peninga eða með einhverjum öðrum en sambærilegum hætti.

Áhugamennskunefnd hvetur kylfinga, mótshaldara eða bakhjarla golfmóta til að hafa fyrirfram samband við einhvern nefndarmanna, ef vafi þykir leika á því hvort verðlaun rúmist innan leyfilegra marka.

Auk þess vekur áhugamennskunefnd athygli á sérstökum viðauka um fjárhættuspil í tengslum við golfleik, sem er að finna á bls. 181-182 í golfreglubókinni fyrir árin  2012-2015.

Heimild: golf.is