Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 10. 2012 | 11:30

Hættulegustu golfvellir heims nr. 11

Þær greinar sem verið hafa hvað vinsælastar hér á Golf1 að undanförnu eru greinarnar um hættulegustu golfvelli heims.

Upphaflega var ætlunin að hafa greinarnar um hættulegustu vellina, aðeins 10 greina greinaflokk, en ákveðið hefir verið að bæta 2 hættulegum golfvöllum við vegna góðra undirtekta og e.t.v. enn fleirum síðar, ef góðar ábendingar fást eins og í þessum tveimur tilvikum.

Sá fyrri, sem nefndur verður til sögunnar í dag, er Kantarat golfvöllurinn á Don Mueang flugvellinum í Bankok, Thailandi. Það eru margir golfvellir í námunda við stærstu flugvelli heims og er það ekki hættulaus staðsetning, ef flugvél skyldi nú t.a.m. hrapa í lendingu.

En telja verður Kantarat völlinn, sem er 18 holu par-72 með þeim allra hættulegustu því hann liggur beinlínis milli tveggja aðalflugbrauta vallarins!!!

Rauð viðvörunarljós fara af stað á vellinum þegar stærstu flugvélarnar eru að lenda og þá verður að stöðva leik.  Kylfingar eru beinlínis í hættu hér ekki vegna véla sem kunna að hrapa heldur þarf ekki meira til en þær fari af braut og eins er þetta hættulegt fyrir vélarnar þ.e. ef t.d. teighögg misheppnast.

Hér er ekki vitlaust að leigja sér golfbíl því stundum er bið þegar rauðu ljósin blikka og þá er gott að bíða í bílunum.  Annars er völlurinn góð æfing í að halda einbeitingu því hávaðinn frá breiðþotum og allskyns öðrum flugvélum er oft ærandi!!!