Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 3. 2014 | 08:00

Hægur leikur og fækkun félaga áhyggjuefni golfklúbba

Of hægur leikur og minnkandi aðild manna að golfklúbbum eru mestu áhyggjuefni golfklúbba í Bretlandi skv. nýlegri skoðanakönnun Sky Sports.

Of hægur leikur er aðaláhyggjuefnið og niðurstaðan birtist aðeins dögum eftir að Luke Donald kom fram og sagði að of hægur leikur gæti orðið til þess að sérstaklega yngstu kylfingarnir hyrfu frá golfíþróttinni.

Yfir 250 golfklúbbar tóku þátt í skoðanakönnuninni og svöruðu 94% klúbba því játandi að meðalgolfhringur tæki of langan tíma og 91% voru á þeirri skoðun að vandamálið myndi eflaust minnka ef stjórnvöld innan golfíþróttarinnar tækju harðar á atvinnumönnum, sem léku of hægt.

Um 70% klúbba sögðust hafa orðið fyrir fækkun í meðlimafjölda klúbba sinna s.l. 5 ár.

Sérstaklega hefir ungum iðkendum fækkað jafnvel þó um 76% klúbba bjóði upp á sérstaka dagskrá fyrir börn og unglinga. Mest er þó fækkun meðal kvenkylfinga en þar hefir iðkendum fækkað um 75%.

Þrátt fyrir þessar þrúgandi staðreyndir segjast 52% klúbba fá næga aðstoð frá stjórnvöldum innan golfhreyfingarinnar.