Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 18. 2013 | 14:45

GVS: Vélaskemmu ekki stolið – Styrktaraðili tók gjöfina aftur!

Jón Ingvi Baldvinsson, varaformaður GVS sagði svo frá í samtali við Golf1 að ný vélaskemma, sem var ósamsett á planinu hjá GVS hefði horfið í gær. Það hefði verið einn klúbbfélagi sem keyrði ströndina, sem sá vörubíla hífa einingarnar upp á pall.  Því var málið kært til lögreglu, þar sem talið var að skemmunni hefði verið stolið.

Vélaskemman nýja átti að bæta úr gömlum bragga, sem þjónað hefir GVS  og stendur við sjávarkambinn þ.e. við 7. braut.  „Það er búið að brjótast inn í þann bragga 2 sinnum og stela þar verkfærum og óforsvaranlegt að geyma nokkuð í þeirri skemmu,“ sagði Jón Ingvi.

Í dag er málið upplýst.

„Við fengum nýju skemmuna (ósamsettu) gefna frá einum stuðningsaðila okkar,“ sagði Andrés Guðmundsson, formaður GVS við í samtali við Golf1. „Sá sem gaf okkur hana, sá að sér og tók hana tilbaka aftur. Skemman var búin að vera ósamsett á planinu hjá okkur í 1 ár. Í fyrra fór öll vinna og fjármunir í að undirbúa byggingarreitinn undir skemmuna og bera burðarefni í hann.  Við vissum ekki að hann ætlaði að taka gjöfina aftur og kærðum því atvikið til lögreglunnar.  Við höfum ekkert í höndunum yfir að við eigum þetta, höfum ekkert afsal, enda ekki búið að reisa skemmuna og getum því ekki annað en þakkað fyrir okkur.“

Andrés vildi ekki upplýsa hver gefandinn væri – en sagðist óska honum velfarnaðar!

„Við hefðum aldrei kært þetta ef við hefðum vitað að hann væri að taka skemmuna aftur – við bara trúðum því ekki – við héldum að þetta væri einhver annar – ef gefandinn vill taka þetta aftur þá er þetta á hans valdi,“ sagði formaður GVS loks.

Reisa átti nýju skemmuna nú í vor eða sumar og ljóst að nú verður ekkert af því.

Varðandi hvað yrði gert í framhaldinu sagði Andrés: „Nú verðum við bara að hugsa okkur um. Byggingareiturinn er til.“

Ef einhver býr svo vel að geta séð af góðri skemmu handa GVS þá væri hún vel þegin!!! Hér með er auglýst eftir nýjum styrktaraðila!!!