Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 2. 2015 | 20:00

Gulbis komst í gegnum úrtökumót f. US Open

Natalie Gulbis sýndi og sannaði að hún er meira en bara fallegt andlit.

2015 keppnistímabilið hefir ekkert verið neitt sérstakt hjá henni… og reyndar 2014 keppnistímabilið ekki heldur.

Reyndar hefir Gulbis ekki verið meðal topp-10 í nokkru móti á LPGA síðan árið 2013 á Women’s British Open.

Og eini sigur hinnar 32 ára Gulbis er enn Evian Masters árið 2007.

En hvað sem öðru líður var hún a.m.k. á tímabili alltaf valin uppáhaldskvenkylfingur í viðtölum við karlkylfinga hér á Golf1 og er a.m.k. á Golf 1 mestnefndi uppáhaldskvenkylfingurinn; en svo er reyndar ekki bara hér á Golf 1 heldur víðar í golfpressunni.

Hún er ein af þeim kvenkylfingum sem allan feril sinn hefir gert út á kynþokkan með góðum árangri.

En nú hefir Gulbis snúið við blaðinu og sýndi á Galloway National Golf Club, þar sem úrtökumótið fyrir Opna bandaríska kvenrisamótið fór fram, hvað í henni bjó.

Á rigningarvotu og allhvössu móti setti hún nýtt vallarmet; lék fyrsta hring á 66 höggum og flaug inn í Opna bandaríska kvenrisamótið!