Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 28. 2012 | 16:20

Guðrún Brá var ein af 11 sem spiluðu undir pari á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar! Viðtal

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, í Golfklúbbnum Keili, varð í 2. sæti á Örninn golfverslun, 1. móti Eimskips- mótaraðarinnar.

Guðrún Brá lauk keppni á +5 yfir pari, 149 höggum  (79 70).  Seinni  hringurinn var mun betri og eins og með svo marga hefði verið gaman að sjá hvert skor Guðrúnar Brá hefði verið, ef veður hefði verið gott báða keppnisdagana.

Guðrún Brá ásamt kaddý sínum, þjálfara og föður Björgvini Sigurbergssyni, margföldum Íslandsmeistara á 1. teig á Hólmsvelli. Mynd: Golf 1

Á seinni hringnum, í gær, fékk Guðrún Brá 3 fugla (á 1., 3. (Bergvíkina!!!) og 14. braut)  og skolla á 10. braut og kom inn á 70 glæsihöggum, -2 undir pari. Við það varð Guðrún Brá ein af aðeins 11 keppendum mótsins (af 121 sem lauk keppni) sem spiluðu Leiruna undir pari (hinir voru Birgir Leifur Hafþórsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Hlynur Geir Hjartarson, Einar Haukur ÓskarssonÓlafía Þórunn Kristinsdóttir, Dagur Ebenezersson, Andri Þór Björnsson, Þórður Rafn Gissurarson, Gísli Þór Þórðarson og Helgi Dan Steinsson.)

Guðrún Brá (2. frá hægri) ásamt þeim Önnu Sólveigu Snorradóttur, GK, sem varð í 3. sæti og sigurvegaranum í kvennaflokki Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, GR (2. frá vinstri). Mynd: gsimyndir.net

Golf 1 tók stutt viðtal við Guðrúnu Brá að móti loknu:

Golf1: Ertu ánægð með árangurinn á 1. mótinu á Eimskipsmótaröðinni?

Guðrún Brá: Já, ég er bara mjög ánægð, var að spila bara mjög vel seinni daginn, ánægð að þetta sé byrjunin á sumrinu.

 

Golf1: Já þetta var flott hjá þér! Ætlar þú að taka þátt í öllum mótum Eimskipsmótaraðarinnar í sumar?

Guðrún Brá: Já, ég ætla að taka þátt í Eimskipsmótaröðinni og taka Unglingamótaröðina með.

 

Golf1: Hver eru markmiðin fyrir sumarið?

Guðrún Brá: Ég er búin að setja mér markmið, en ég held þeim bara fyrir mig.

 

Golf 1: OK gott svar. Hvernig finnst þér breiddin á mótaröðinni – að þínu mati eru keppinautarnir sterkir?

Guðrún Brá: Jáa, við erum mjög margar, sem munu vera að berjast um fyrsta sætið í mótunum í allt sumar.

 

Golf 1: Nú ertu ein af þeim 11 sem spiluðu undir pari af 121 sem luku keppni og önnur af 2 kvenkylfingum af 26, sem spiluðu undir pari – hverju þakkar þú það?

Guðrún Brá: Mm veit ekki, kom bara vel undirbúin í þetta mót og örugglega bara góðar æfingar í vetur og nýlega.

 

Golf1: Að síðustu: Telur þú að veðrið hafi haft mikil áhrif á skorið þitt?

Guðrún Brá: Já, klárlega fyrsta daginn. en ég meina það er kannski ekkert rosa afsökun maður hefur oft spilað í svona áður, en stutta spilið var aðeins að klikka fyrri daginn.