Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Mynd: seth@golf.is
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 16. 2022 | 18:00

Guðmundur Ágúst kominn á Evróputúrinn!!! FRÁBÆR!!!

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, náði þeim frábæra árangri í dag að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki, DP World Tour.

Guðmundur Ágúst er aðeins annar íslenski kylfingurinn sem nær þessum árangri – en Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, náði tvívegis að komast í gegnum lokaúrtökumótið á Evrópumótaröðinni, DP World Tour. Fyrst árið 2006 og aftur ári síðar.

Lokaúrtökumótinu lauk í dag þegar sjötti keppnisdagurinn fór fram.

Guðmundur Ágúst lék hringina sex á samtals -18 og endaði í 19.-23 sæti.

Til þess að fá keppnisrétt á DP World Tour á næsta tímabili, 2023, þurftu keppendur að vera í einu af 25 efstu sætunum á lokaúrtökumótinu.

Guðmundur Ágúst mun hefja tímabilið á DP World Tour þann 24. nóvember þar sem Joburg Open mótið fer fram í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Mótið stendur yfir dagana 24.-27. nóvember.

Þetta var í annað sinn sem Guðmundur Ágúst nær að komast inn á lokaúrtökumótið. Hann var einnig í þessari stöðu árið 2019 þar sem hann náði ekki í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnishringinn.

Bjarki Pétursson, GKG, komst einnig inn á lokaúrtökumótið en hann náði sér ekki á strik og komst ekki áfram.

Sjá má lokastöðuna á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla með því að SMELLA HÉR: 

Texti: GSÍ