Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 13. 2013 | 08:45

Guan yngstur í gegnum niðurskurð

Guan Tianlang, 14 ára áhugamaðurinn frá Kína var þegar búinn að skrifa sig inn í sögubækurnar fyrir að vera sá yngsti til þess að hafa fengið þátttökurétt í Masters. Nú í gær, föstudaginn 12. apríl 2013 setti hann annað met – hann er sá yngsti til þess að komast í gegnum niðurskurð á PGA Tour móti.

Guan kláraði fyrstu 36 holurnar á samtals 4 yfir pari, eftir að hafa verið á 3 yfir pari, 75 höggum, á föstudaginn, þar sem 1 höggið var víti fyrir of hægan leik.

Hann var í hættu að ná ekki niðurskurði því hefði Jason Day fengið fugl á aðra af síðustu tveimur holunum hefði Day klárað á samtals 7 undir pari og niðurskurður verið miðaður við þá sem voru á samtals 3 yfir pari.

En Day fékk par á síðustu holurnar og var á 6 undir pari og þar með fá Guan og 6 aðrir kylfingar þ.á.m. sá sem á titil að verja, Bubba Watson, að spila um helgina. Á þriðja hring, nú í dag, laugardaginn 13. apríl fer Guan út með Thorbirni Olesen frá Danmörku, kl. 9:55 að staðartíma (sem er kl. 13:55 hjá okkur á Íslandi).

Hversu stór frétt var afrek Guan? CNN sendi út „breaking news alert“ þ.e. var með tilkynningu um afrek Guan í miðjum öðrum dagskrárlið, sem rann aftur og aftur yfir skjáinn.

„Augljóslega er þetta undraverður árangur að komast til að spila helgina á Augusta,“ sagði Day um Guan. „Og að fá að spila og upplifa það sem hann reynir nú um helgina, það er ekki hægt að kaupa það …. eina leiðin er að upplifa það sjálfur um helgina og augljóslega er hann með bátsfarmafylli af hæfileikum.“

Guan er eini áhugamaðurinn af þeim 6 sem þátt tóku í Masters til þess að ná niðurskurði. Það þýðir að hann er þegar búinn að vinna sér inn silfurbikarinn, sem sá áhugamaður hlýtur sem er með lægsta skorið. Verðlaunin verða afhent í Butler Cabin um leið og sjónvarpað er frá athöfninni þar sem sigurvegari Masters hlýtur græna jakkann.

Sá sem var yngstur fram til dagsins í gær (frá árinu 1900) til að komast í gegnum niðurskurð á PGA Tour móti var Bob Panasik, en hann var 15 ára, 8 mánaða og 20 daga þegar hann komst í gegnum niðurskurð á Canadian Open, 1957. Guan er 14 ára, 5 mánaða og 18 daga ungur.

Sá yngsti til dagsins í gær til að komast í gegnum niðurskurð á Masters var Matteo Manassero, sem var 16 ára, 11 mánaða og 21 daga þegar hann náði niðurskurði árið 2010.

Manasssero var í ráshóp með Guan fyrstu tvo dagana ásamt tvöföldum Masters-sigurvergara hinum 61 árs Ben Crenshaw, en hvorugir spilafélaga Guan spila nú um helgina.

En Guan er aðeins sá yngsti til þess að spila í risamóti eftir 1900. Tom Morris yngri spilaði á Opna breska árið 1865, þá 14 ára, 4 mánaða og 25 daga.

Þeir yngstu til þess að komast í gegnum niðurskurð á PGA Tour (frá árinu 1900)

Leikmaður Aldur þegar niðurskurði var náð Mót
Guan Tianlang 14 ára, 5 mánaða, 18 daga 2013 Masters
Bob Panasik 15 ára, 8 mánaða, 20 daga 1957 Canadian Open
Tadd Fujikawa 16 ára, 4 daga 2007 Sony Open in Hawaii
Justin Thomas 16 ára, 2 mánaða, 23 daga 2009 Wyndham Championship
Matteo Manassero 16 ára, 2 mánaða 29 daga 2009 British Open