Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 12. 2013 | 21:00

Guan fékk víti fyrir hægan leik

Guan Tianlang, 14 ára áhugamaðurinn frá Kína sem hefir skrifað sig í sögubækurnar fyrir að vera yngsti kylfingur til að taka þátt í the Masters og sem átti þetta líka fína skor upp á 1 yfir pari, 73 högg í gær fékk 1 víti í dag fyrir of hægan leik á öðrum hring mótsins, en það varðar við reglu 6-7 í golfreglum R&A.

Guan fékk vítið á 17. holu (Nandinu) á Augusta National og Fred Ridley, nefndarformaður Masters gaf út yfirlýsingu þar sem hann sagði að Guan, Ben Crenshaw og Matteo Manassero hefðu verið komnir á eftir á 10. holu og byrjað hefði verið að taka tímann á Guan á 12. holu, hann fékk fyrstu viðvörun eftir 2. högg sitt á 13. holu og fékk síðan víti eftir 2. höggið á 17. holu „þegar hann fór aftur umtalsvert fram úr þeim 40 sekúndum sem hann hefir til þess að taka höggið“ sagði Ridley.

Guan varði drjúgum tíma í að skila skorkortinu eftir hringinn og aðspurður þegar hann kom út sagðist hann sammála vítinu. „Ég virði ákvörðunina sem þeir tóku,“ sagði 14 ára strákurinn frá Kína.

Síðasta skiptið sem nokkur fékk víti fyrir of hægan leik var 2010 á PGA Championship og sá sem það hlaut var Frakkinn Grégory Bourdy á Whistling Straits. Síðasta skiptið sem maður fékk 1 höggs víti fyrir hægan leik var 1995 þegar Glen Day (oft uppnefndur Old Day vegna hægagangs) fékk víti á 3. hring The Honda Classic.

 „Mér líður illa. Hann er 14 ára. Mér þykir svo leiðinlegt að þetta skyldi hafa skeð,“ sagði Crenshaw. „….. þetta á ekki eftir að fara vel í marga.“

„Þetta er augljóslega erfiður dagur fyrir alla,“ sagði Manassero, „en atvinnumennskan í golfinu er bara eins og hún er og nú er þetta almennt vandamál of hægur leikur og dómarar eru mjög strangir.“

Guan sagði að höggið þar sem vítið var dæmt á hann, hefði komið vegna þess að hann ákvað að taka aðra kylfu og það hefði tekið hann „rétt yfir 50 sekúndur“ að slá. Aðspurður um hvort hann þekkti reglurnar sagði Guan: „Ég þekki reglurnar býsna vel!“

Crenshaw var spurður hvort vítið væri réttlætanlegt. Svarið: „Það er ekki nokkur spurning að hann spilaði hægt á stundum. En hann var að prófa hlutina. Reglan segir 45 sekúndur, vitið þið og það er ansi erfitt að halda sig við það í móti með aðstæðum eins og þær voru. Þetta kemur fyrir, en mér þykir það virkilega leitt.“

Guan er samtals á 4 yfir pari, 148 höggum sem er alls ekkert slæmt fyrir einhvern sem er að spila Augusta National í fyrsta sinn, hvað þá 14 ára strák. Og draumurinn er ekki búinn því Guan er eftir sem áður efstur af áhugamönnunum og veik von enn um að hann komist í gegnum niðurskurð. Verði hann ekki meðal þeirra sem eru jafnir í 50. sætinu þá á hann enn möguleika að komast inn á reglunni um að hann sé minna en 10 höggum frá efsta manni. Sem stendur er Fred Couples efstur af þeim sem lokið hafa leik á 5 undir pari, 139 höggum og verði enginn ofar en Couples er Guan kominn gegnum niðurskurðinn.

Guan sagði að vítið myndi ekki hafa neikvæð áhrif á minningar sínar frá þessari sögulegu viku á Augusta National. „Þetta er eftir sem áður dásamleg reynsla!“

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SJÁ SKORKORT GUAN