Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 31. 2014 | 15:00

GÞ: Ásta Júlía heiðruð – Guðmundur áfram formaður

Á aðalfundi Golfklúbbs Þorlákshafnar var ákveðið að lækka árgjaldið í 46.000 kr., og þar að nær skilgreining á nýliða í klúbbnum yfir tveggja ára tímabil. Nýliðagjaldið verður 21.000 kr. á fyrsta árinu og 25.000 kr. á síðara árinu eða sem nemur einu ársgjaldi á tveimur árum. Heildarfélagafjöldi í GÞ er 331 þar af eru 240 í Landsbankadeild klúbbsins. Rekstur GÞ er með ágætum og var tap ársins eftir fjármagnsliði 14.000 kr., en heildarskuldir klúbbsins eru 18,6 milljónir kr.

Rekstrartekjur ársins voru 25,5 milljónir kr. og var hagnaður fyrir fjármagnsliði 1.229 þúsund kr.

Í tilkynningu frá GÞ kemur fram að lækkun gjalda sé hluti af markaðsstarfi klúbbsins og ætti að höfða til aðþrengdra höfuðborgarbúa en þeim hefur fjölgað nokkuð í klúbbnum á liðnum árum.

Á aðalfundinum flutti formaður klúbbsins, Guðmundur K. Baldursson skýrslu stjórnar. Guðmundur var endurkjörinn formaður og engar breytingar urðu á stjórn klúbbsins.

Stjórnin ákvað að verðlauna Ástu Júlíu Jónsdóttur með heiðursviðurkenningu GÞ ársins 2013. Ásta Júlía hefur unnið gott sjálfboðastarf í þágu kvennamála við Golfklúbb Þorlákshafnar og er virkur meðlimur í öllu starfi klúbbsins.

Edwin Roald Rögnvaldsson lokaði fundinum með því að fara yfir framtíðarhugmyndir Þorláksvallar. Edwin, ásamt stjórn klúbbsins, mun á næstu vikum vinna áætlun um þessar breytingar.

Verðskrá GÞ
Fullt gjald: 46.000 kr. (áður 49.000)
Makar og 67 ára og eldri: 23.000 kr. (áður 24.500)
Unglingar 20 – 22 ára: 23.000 kr. (áður 24.500)
Byrjendur 1. ár: 21.000 kr. (áður 23.000)
Byrjendur 2. ár: 25.000 kr. (áður 27.000)
19 ára og yngri: Frítt í klúbbinn