Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 14. 2013 | 13:30

GSÍ: Íslandsbanki og GSÍ hefja samstarf um barna- og unglingastarf – Hörður Þorsteinsson:„Golfíþróttin – Íþrótt fyrir lífið“

GSÍ efndi til blaðamannafundar í Básum, í hádeginu í dag, 14. maí 2013.  Þar kynnti GSÍ samstarfsaðila sinn að barna- og unglingastarfi til næstu ára. Íslandsbankamótaröðin, sem eins og nafnið gefur til kynna verður nú rekin í samstarfi við Íslandsbanka og það sama gildir um Áskorendamótaröð Íslandsbanka.  Var samstarfið kynnt og samstarfssamningur undirritaður  og handsalaður af Herði Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra GSÍ,  Hólmfríði Einarsdóttur, markaðsstjóra Íslandsbanka, og Sögu Traustadóttur, GR  núverandi Íslandsmeistara í höggleik stelpna. Þau hófu síðan samstarfið á því að slá nokkur högg í Básum, æfingasvæði GR.

Saga Traustadóttir, GR, núverandi Íslandsmeistari í höggleik stelpna býr sig undir að slá högg til að innsigla samstarf GSÍ og Íslandsbanka um barna- og unglingastarf. Mynd: Golf 1

Saga Traustadóttir, GR, núverandi Íslandsmeistari í höggleik stelpna 2012 býr sig undir að slá högg til að innsigla samstarf GSÍ og Íslandsbanka um barna- og unglingastarf. Mynd: Golf 1

Á fundinum kom fram að það væri Golfsambandi Íslands mikið ánægjuefni að fá til liðs við sambandið svo öflugan bakhjarl til að styðja við uppbyggingu golfhreyfingarinnar, en eitt af mikilvægustu verkefnum sambandsins er að efla og styrkja banrna- og unglingastarf golfhreyfingarinnar. Á liðnum árum hefir verið mikil vakning í barna- og unglingastarfi golfklúbbanna og er nú svo komið að fleiri hundruð börn sækja námskeið þeirra um landið.  Mótahald barna og unglinga hefir af þeim orsökum verið að eflast og því GSÍ mikið fagnaðarefni að fá svo öflugan samstafsaðila sem Íslandsbanki er til að styrkja enn frekar umgjörð þeirra. Fyrsta mótið á Íslandsbankamótaröðinni verður á golfvellinum í Þorlákshöfn um næstu helgi en þar munu 144 efnilegustu kylfingar í barna- og unglingaflokkum keppa um sigur í þremur mismunandi aldursflokkum. Sjö mót verða á Íslandsbankamótaröð unglinga í sumar og verða þau á eftirfarandi golfvöllum:

18.-19. maí      Þorlákshafnarvelli, GÞ, Þorlákshöfn.

1.-2. júní           Strandarvelli, GHR, Hellu.

14.-16. júní       Leirdalsvelli, GKG, Íslandsmótið í holukeppni, Kópavogi/Garðabæ.

27.-28. júlí        Jaðarsvelli, GA, Akureyri.

9.-11. ágúst       Hólmsvelli, GS, Íslandsmót í höggleik, Suðurnesjum.

7.-8. sept.          Grafarholtsvöllur, GR, Reykjavík.

Hólmfríður Einarsdóttir og Saga Traustadóttir

Samhliða Íslandsbankamótaröðinni verður Áskorendamótaröð Íslandsbanka, sem er mótaröð þeirra kylfinga, sem ekki hafa forgjöf til að komast inn á aðalmótaröðina.  Þau mót fara fram á eftirfarandi golfvöllum:

18. maí              Húsatóftavelli, GG, Grindavík

1. júní                 Þverárvelli, GÞH, Fljótshlíð

15. júní               Setbergsvelli, GSE, Hafnarfirði

20. júlí                Arnarholtsvelli, GHD, Dalvík

10.-11. ágúst      Kirkjubólsvelli, GSG, Sandgerði

7. september       Nesvöllur, NK, Seltjarnarnesi

Golfsamband Íslands og Íslandsbanki munu jafnframt fara í öflugt kynningarstarf á golfíþróttinni, þar sem leitast verður við að bjóða börnum og unglingum að kynnast íþróttinni með kynningum í skólum, á leikjanámskeiðum og þeim stöðum, þar sem náð verður til barna og unglinga.

Hólmfríður Einarsdóttir og Hörður Þorsteinsson. Mynd: Golf 1

Hólmfríður Einarsdóttir og Hörður Þorsteinsson.            Mynd: Golf 1

Í tilefni af samstarfi Golfsambands Íslands og Íslandsbanka sagði Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ eftirfarandi:

„Við erum afar þakklát fyrir stuðning Íslandsbanka við barna- og unglingastarf okkar. Með kjörorðinu: „Golf – íþrótt fyrir alla – allt lífið“ leggjum við áherslu á mikilvægi þess að golf er fjölskylduíþrótt, þar sem allir geta komið saman og átt skemmtilega samverustund. Forgjafarkerfið veitir okkur þau forréttindi að allir get keppt á jafnréttisgrundvelli óháð aldri, kyni eða getu. Með þau skilaboð viljum við hvetja alla, börn, foreldra, afa og ömmur að horfa til golfíþróttarinnar, sem íþrótt fyrir lífið.“ 

Hólmfríður Einarsdóttir, markaðsstjóri Íslandsbanka sagði loks eftirfarandi:

„Mikill vöxtur og jákvæð uppbygging hefir átt sér stað í golfiðkun barna og unglinga á Íslandi undanfarin ár og hefir Golfsambandið átt veg og vanda að því. Íslandsbanki er dyggur samstarfsaðili íþróttahreyfingarinnar í landinu og hefir lagt sérstaka áherslu á að styðja barna og unglingastarf. Við hlökkum til samstarfsins við GSÍ og óskum öllum þátttakendum og öðrum golfurum góðs gengis í sumar.“