Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 24. 2014 | 09:00

GSÍ: Árleg endurskoðun forgjafar

Í upphafi hvers árs eiga klúbbar að framkvæma árlega endurskoðun forgjafar hjá öllum klúbbfélögum. Hér að neðan eru svör við nokkrum algengum spurningum sem kunna að vakna.

Hvaða forgjafir verða endurskoðaðar?

Í þessari árlegu endurskoðun verða bara virkar forgjafir notaðar (lágmark fjögur gild skor á síðasta ári), og byggja skal á minnst átta forgjafarhringjum yfir tveggja ára tímabil.

Forgjafir sem ekki fá endurskoðun eru þær sem eru óvirkar, þ.e.a.s. þrjú gild skor eða færri á síðasta ári. Ekki verður átt við forgjafir frá 36 til 54.

Síðan hvenær var farið að endurskoða forgjafir kylfinga árlega?

Alveg síðan 1928 hefur árleg endurskoðun forgjafar verið hluti af Evrópska forgjafarkerfinu. En fram til ársins 2011 var það tilviljanakennt hvort forgjafarnefndir klúbba framkvæmdu hana þar sem handreikna þurfti hvern kylfing fyrir sig og kostaði það mikla yfirlegu. Nú er hún hluti af tölvukerfi klúbbana og hefur það auðveldað alla vinnu fyrir nefndirnar.

Afhverju lækkar forgjöfin mín um 1 eða jafnvel 2 þó að ég hafi sjaldan leikið á 36 eða fleiri punktum?

Margir kylfingar halda að til að staðfesta forgjöfina sína ættu þeir að vera leika á 36 punktum. Það er ekki alveg rétt heldur ætti það að teljast frábær árangur og gerist ekki á hverjum degi. Sá sem leikur reglulega á gráa svæðinu og yfir sýnir að geta hans er betri en forgjöfin gefur til kynna.

Til hliðsjónar hefur Evrópumeðaltals Stablefordskor (EASS) fyrir forgjafarflokka hefur verið reiknað út eins og sjá má í þessari töflu.

Hvað getur forgjöfin breyst mikið í árlegri endurskoðun?

Fyrir þá sem uppfylla skilyrðin til endurskoðunar getur forgjöfin hækkað eða lækkað um eitt eða tvö högg.

Hvaða skor eru tekin í útreikninginn?

Fyrir árlega endurskoðun forgjafar þurfa að liggja fyrir átta gild skor. Lágmark fjögur þurfa að koma frá síðasta ári og hægt er að fylla upp í með öðum fjórum frá þar síðasta ári. Ef kylfingurinn hefur hins vegar átta gild skor frá síðasta ári þá verða þær notaðar til útreiknings.

Er þetta eitthvað séríslenskt að endurskoða forgjöf kylfinga?

Nei. Í öllum löndum Evrópu sem eru að nota sameiginlegt forgjafarkerfi er þetta gert. Þetta er líka gert í CONGU forgjafarkerfinu sem notað er á Bretlandseyjum.

Getur kylfingur komist hjá því að láta endurskoða forgjöfina sína með því að skila ekki inn næginlega mörgum forgjafarhringjum?

Já. Með aðeins þrjú eða færri gild skor á ári er ekki hægt að átta sig vel á getu leikmanns og hann fær ekki endurskoðun. Eftir því sem leikmaður skilar inn fleiri gildum skorum þeim mun réttari verður forgjöfin.

Til að tryggja sanngirni og samræmi í golfíþróttinni eru allir kylfingar ábyrgir fyrir því að vera með nýlega uppfærða og „virka“ forgjöf. Til að tryggja að allir hafi sömu vinningsmöguleika í mótum getur klúbbur sett þær reglur að keppendur verði að vera með virka forgjöf til að vinna til verðlauna. Hugsunin á bak við þetta er ekki að refsa þeim með óvirku forgjöfina, heldur tryggja öllum sömu vinningsmöguleika.

Athugið: markmið golfleiks er ekki að “viðhalda” forgjöf, heldur að reyna skora eins vel og hægt er á hverjum leiknum hring.

 Heimild: golf.is