Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 12. 2012 | 16:35

GSG: Pétur Þór Jaidee kjörinn íþróttamaður Sandgerðisbæjar 2011

Á www.sandgerdi.is er eftirfarandi frétt:
„Pétur Þór Jaidee golfmaður var kjörinn íþróttamaður Sandgerðisbæjar 2011 við hátíðlega athöfn í Samkomuhúsinu í Sandgerði á föstudaginn, en Pétur hefur náð framúrskarandi árangri í golfi. Fjórir aðrir voru tilnefndir íþróttamenn ársins; Dagbjört Ottesen Karlsdóttir fyrir sund, Guðmundur Gísli Gunnarsson fyrir knattspyrnu, Karel Bergmann Gunnarsson fyrir taekwondo, og Rúnar Ágúst Pálsson fyrir körfuknattleik.

Við sama tækifæri veitti frístunda-, forvarna- og jafnréttisráð í fyrsta sinn sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf að íþrótta- og æskulýðsmálum í Sandgerðisbæ.

Viðurkenninguna hlaut Sveinn Hans Gíslason.

Kjör íþróttamanns ársins fer fram í minningu Magnúsar Þórðarsonar, eins stofnanda Knattspyrnufélagsins Reynis. Við afhendinguna sagði Sigursveinn B. Jónsson bæjarfulltrúi og formaður nefndar um kjör íþróttamanns ársins eftirfarandi:

„Það er vel við hæfi, og í anda Magnúsar Þórðarsonar þegar tilkynnt er að sá aðili sem hlýtur viðurkenningu fyrir störf að íþrótta- og æskulýðsmálum í Sandgerðisbæ er Sveinn Hans Gíslason.

Sveinn Hans Gíslason eða Svenni eins og við þekkjum hann fæddist 30. ágúst árið 1965. Hann er sonur hjónanna Gísla Hanssonar Wium og Sígurlínar Sveinsdóttur. Svenni er giftur Helgu Hrönn Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn, Bjarka Þór Wium, Petru Wium og Styrmi Þór Wium.

Svenni hefur verið leikmaður með körfuknattleiksdeild Reynis frá stofnun deildarinnar 1980, eða í 32 ár.

Hann hefur setið í stjórn deildarinnar frá 1987 eða í 25 ár og verið formaður deildarinnar frá 1988 eða í 24 ár.

Það er ekki aðeins að Svenni hafi verið formaður, heldur hefur hann líka verið þjálfari og séð um barna- og unglingastarf deildarinnar auk þess sem hann hefur verið framkvæmdastjóri, séð um fjáröflun, skipulag og framkvæmd leikja og móta.

Helga Hrönn Ólafsdóttir, eiginkona Svenna hefur staðið með Svenna í þessu starfi og færum við henni bestu þakkir fyrir. Segja má að heimili þeirra hafi alla tíð verið heimili körfuboltans í Sandgerði.

Á þessum tímum þegar talað er um að hver hugsi um sjálfan sig og enginn geri neitt nema fá greitt fyrir er ómetanlegt að eiga fyrirmyndir eins og Svenna sem hefur gefið frístundir sínar í ríflega 30 ár til að byggja upp og hlúa að íþrótta- og tómstundastarfi í bæjarfélaginu. Það verður seint fullþakkað.” „