Ragnheiður Jónsdóttir | október. 17. 2011 | 10:30

Greg Norman: „Hefði ekki valið Tiger í Forsetabikarsliðið“

Greg Norman alías „hvíti hákarlinn” hefir ekki mikið álit á hvernig Tiger Woods er að spila þessa dagana og segir að hann hefði ekki valið hann til þess að spila í Forsetabikarskeppninni.

Greg sem sagði í nýlegu tímaritsviðtali að hann hefði enga trú á að Tiger myndi sigra annað risamót sagði við  Fort Myers (Fla.) News-Press að sigurvegarinn á PGA Championship, Keegan Bradley, hefði verið rökréttara val fyrir fyrirliða Bandaríkjanna, Fred Couples.

Greg er fyrirliði alþjóðaliðsins, sem keppir í Forsetabikarskeppninni, nákvæmlega eftir mánuð þ.e. dagana 17.-20. nóvember í Royal Melbourne.„Ég get skilið (hvaða aðdráttarafl) nafnið Tiger Woods hefir og söguna um hvað hann hefir gert á golfvellinum,” sagði Greg Norman. „En ég vel stráka sem eru tilbúnir að fara þarna og spila og hafa verið að ná árangri meðal þeirra bestu að undanförnu.”Fred Couples sagði mánuði áður en hann gaf upp þá endanlegu 2 sem hann átti kost á að velja í lið sitt að annar þeirra yrði Tiger Woods; Hann (Tiger) „væri besti kylfingur allra tíma.” Tiger hefir ekki unnið s.l. tvö ár og hefir dottið út af topp-50 á heimslistanum, en í þeirri stöðu hefir hann ekki verið frá því hann var 20 ára nýliði 1996. Couples valdi líka FedExCup meistarann Bill Haas (en pabbi hans Jay Haas er aðstoðarfyrirliði).

Greg kom með framangreindar athugasemdir s.l. laugardag þegar hann var að kynna Shark Shootout mótið sitt í Tiburon Golf Club. Keegan Bradley er meðal þeirra 24 sem keppa í mótinu og Greg sagði að sér þætti leitt að hinn 25 ára nýliði væri ekki í bandaríska liðinu.

„Ef ég stæði í fótsporum hans, myndi mér finnast ég hafa verið hlunnfarinn,” sagði Greg Norman. „Þetta er ungur strákur. Hann kann vel við Forsetabikarinn. Hann elskar hugmyndina um að spila fyrir landið sitt og hann fær ekki að gera það. Þannig að ég hef samúð með honum.”

Tiger spilaði í fyrsta sinn í næstum 2 mánuði á Frys.com Open (s.s. allir muna) og deildi 30. sætinu með öðrum.

„Mér finnst bara ekki að hann sé að sveifla kylfunni á sama hátt og þegar hann vann öll þessi risamót,” sagði Norman. „Hann er annar kylfingur þarna úti í dag. Hann lítur út fyrir að vera fastur. Hann er meira inn í sig. Ég veit hvað þarf til að hafa frelsi golfsveiflunnar og ég held bara að hann sé ekki tæknilega í réttri stöðu til þess að gera það sem hann gerði.”

Það er víst að komment Greg Norman á eftir að krydda keppnina um Forseta bikarinn svolítið, en Bandaríkjamenn hafa til þessa aðeins tapað 1 sinni – árið 1998 á Royal Melbourne. Það ár, spilaði Tiger á móti Greg Norman í tvímenningnum og sigraði á 18. holu.

Heimild: CBS Sports