Rory McIlroy og Graeme McDowell
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 20. 2013 | 11:00

Graeme McDowell segir stjörnulífið hafa tekið sinn toll af Rory

Graeme McDowell telur að stjörnulífið og pressan af því að vera nr.1 á heimslistanum hafi tekið sinn toll af vini sínum, Rory McIlroy.

McDowell vann sig upp hægt og sígandi í atvinnumennskunni áður en hann náði toppárangri sínum þegar hann sigraði á Opna bandaríska risamótinu á Pebble Beach 2010.

Ferill Rory upp á við hefir á hinn bóginn verið mun brattari, en hinn 23 ára Rory hefir verið mikið í sviðsljósinu einkum eftir að hann brotnaði saman á The Masters 2011.

„Ég er búin að upplifa ör-afbrigði af því sem Rory hefir gengið í gegnum,“ sagði McDowell á blaðamannafundi fyrir mót vikunnar á PGA Tour; Arnold Palmer Invitational.

„Vitið þið, þegar maður kemur frá litlum bæ á Norður-Írlandi og hefir síðan allan þennan pening og er í kastljósi fjölmiðla …. þá verður allt í lífinu margfalt stærra – allt magnast upp. Ég er sjokkeraður hversu vel honum hefir tekist að höndla allt.“

„En auðvitað hefir hann verið alinn upp til þess að verða stjarna alveg frá blautu barnsbeini og uppeldi hans ekki ósvipað Tiger Woods. Hann hefir gengið í gegnum þetta allt. Og á endanum gefur sig eitthvað.“

„Nike samningurinn, stjörnulífið, að vera nr. 1, allt stressið og pressan – hefur tekið sinn toll.“

„Það var bara spurning um ventil, sem myndi gefa sig á einhverjum tímapunkti. Ég geri ráð fyrir að hann hafi fundið fyrir pressunni í upphafi árs, vegna allra væntinganna og nýju styrktaraðilanna og vilja hans til þess að sanna að hann sé hvers eyris virði.“

„Það verður að venjast þessu. Ekkert hefir samt breyst. Þetta er enn sami leikurinn – engin aukapressa. Það er ytri pressan og sú sem hann finnur innra með sér, sem er í raun ekki þar.“

„Árið 2011 þegar ég skrifaði upp á samning við Srixon var ég meistari á Opna bandaríska og meðal 5 efstu á heimslistanum. Allt þetta tók sinn toll af mér.“

Og McDowell sem hefir verið í svipaðri stöðu segir að það sé ekki bara pressan innan mótaraðanna á Rory til þess að sýna árangur heldur líka pressan utan vallar.

„Það er auðvelt að afvegaleiðast, þar sem styrktaraðilarnir vilja sína sneið af þér, fjölmiðlar vilja sína sneið og áhangendur líka,“ sagði McDowell.

„Allt verður svo miklu stærra. Maður verður að vera agaður og forgangsraða og halda áfram að gera hlutina sem maður gerir. Ég fór út úr sjálfum mér e.t.v. í 6 mánuði frá kannski mars – ágúst/september 2011. Ég var ekki sami náunginn.“

„Ég ýkti væntingarnar í hausnum á mér. Þolinmæði mín var í lágmarki. Ég var á bjargbrún. Það tók mig smá tíma að viðurkenna það og stíga tilbaka.“

Margt hefir verið ritað um lægð McDowell frá því að hann vann Opna bandaríska og hann hefir nú upplýst að honum leið bara ekki vel í 15-16 mánuði. Hann spilaði á Valerrama Masters á Evróputúrnum í október 2010, en það var ekki fyrr en á síðasta ári sem G Mac varð í 2. sæti á Bay Hill að honum fannst aftur þægilegt að vera á golfvelinum.

„Fyrstu 12 mánuðina eftir að ég vann Opna bandaríska var áherslan á að ná því að líða vel aftur í eiginn skinni,“ upplýsti hann.

„Það tók mig 15-16 mánuði að höndla hver ég var og hvernig fólk liti á mig og mína stöðu í leiknum.

„En nú er ég spenntur fyrir að halda áfram, með því jafnvægi sem er í lífi mínu nú. Ég er að fara að kvænast og vonandi verð ég faðir brátt og svo á ég líka veitingastað!“

„Ég er að verða stöðugri bæði innan sem utan vallar,“

„Fyrir 2-3 árum myndi veitingastaðurinn hafa verið ónauðsynleg afvegaleiðing sem ég hefði ekki haft tíma fyrir í mínum heimi.“

Í MILLITÍÐINNI –

McDowell talaði við Rory eftir að hann gekk af velli á Honda Classic en um það sagði hann: „Við töluðum saman gegnum sms eftir föstudags-endajaxla-uppákomuna og hann sagði mér hvernig sér liði og ég sagði honum svolítið um það sem hann væri að ganga í gegnum. Ég gaf honum ráð og sagði honum að ég myndi alltaf vera þarna til staðar fyrir hann.“

„Við æfðum saman fyrir WGC-Cadillac Championship og svo virðist sem hann sé á allt öðrum stað í leik sínum nú!”