Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2013 | 10:15

Graeme McDowell kvænist Kristinu Stape… líklega í árslok 2013

Þó Rory McIlroy og Caroline Wozniaki séu ekki að fara að giftast þá er annað upp á teningnum hjá vini og samlanda Rory, Graeme McDowell og kærestu hans Kristin Stape.

Þetta var í fyrsta sinn sem Graeme var fjarri fjölskyldu sinni í Portrush, Co Antrim, á Norður-Írlandi á jólunum, en hinn 33 ára G-Mac hélt upp á jólin í Flórída með heitkonu sinni í glænýju húsi þeirra.

Innanhúsarkítekinn Kristin Stape (33 ára) sagði í viðtali við Irish Independent að þau ætluðu að halda upp á brúðkaupið beggja vegna Atlantsála þannig að fjölskylda Graeme gæti tekið þátt í brúðkaupinu.

Kristin gaf ekkert upp um nákvæma dagsetningu brúðkaupsins, en talið er að af því verði nú í lok árs.

„Við erum með nokkrar dagsetningar í huga og við munum alveg örugglega gifta okkur aftur hér á Norður-Írlandi til þess að fjölskylda og vinir Graeme geti tekið þátt,“ sagði hún.

„Við erum búin að komast að samkomulagi held ég (varðandi veisluhöldin). Við erum bæði ekki mikið fyrir mikla viðhöfn, en vitum nákvæmlega hvað við viljum.“

„Þetta snýst meira um veisluþjónustuna og staðsetningu. Ég hugsa að þetta muni allt falla í ljúfa löð.“

G-Mac og Kristin hittust þegar G-Mac réði Kristinu til þess að hanna húsið sitt í Orlandó. Þau trúlofuðust í nóvember eftir að G-Mac bað Kristinar á hnjánum á þyrlupallinum á fræga Burj Al Arab hótelinu í Dubai.