Ragnheiður Jónsdóttir | október. 10. 2014 | 17:00

GR: Opið styrktarmót fyrir Ólafíu Þórunni og Þórð Rafn á Korpu á morgunn

Á morgun, laugardaginn 11. október fer fram opið styrktarmót á Korpúlfsstaðavelli. Mótið er haldið til  styrktar þeim Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Þórði Rafni Gissurarsyni, sem bæði eru að berjast um að komast á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Ólafía hefur þegar keppt í einu móti á LET Access tour og náði þar glæsilegum árangri og er að undirbúa sig fyrir keppni á úrtökumótum.

Þórður sýndi snilldartilþrif þegar hann vann sér inn rétt til að leika á öðru stigi úrtökumóta fyrir Evróputúrinn.

Golfklúbbur Reykjavíkur er stoltur af þessum tveimur geðþekku og frábæru kylfingum og gefur nú félagsmönnum kost á að styrkja þau í baráttunni og um leið taka þátt í skemmtilegu Texas Scramble móti á Korpúlfsstaðavelli.

Tveir leika saman í liði og gildir samanlögð forgjöf deilt með 5, ræst út af öllum teigum kl.11:00, mæting kl.10:00. Karlar leika á gulum teigum, konur af rauðum. Hæst er gefin forgjöf 36 í báðum flokkum.

Skráning hófst fimmtudaginn 2. október kl.10:00 og má komast inn á golf.is til þess að skrá sig með því að SMELLA HÉR: 
 

Rástímar á golf.is eru einungis til að raða í holl. Mikilvægt er að þeir sem ætla að spila saman í liði séu skráð hlið við hlið í rástíma á golf.is

Verðlaun:

1.sæti – Flugmiði að verðmæti 40.000 kr. x 2

2.sæti – Flugmiði að verðmæti 20.000 kr. x 2

3.sæti – Gjafabréf í Herrafataverslun Karlmenn að verðmæti 10.000 x 2

Nándarverðlaun verða veitt þeim sem er næstu holu á öllum par 3 holum vallarins.

Heimild: Golfklúbbur Reykjavíkur