Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 8. 2015 | 00:32

GR: Nóg að gera hjá afrekskylfingunum

Á heimasíðu GR, grgolf.is, má lesa eftirfarandi frétt:

„Þrír kylfingar frá GR voru valdir í æfingahóp landsliðsins sem fór til Portúgal í morgun. Þau Stefán Bogason, Saga Traustadóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir verða við æfingar með landsliðinu í Morgado í Portúgal næstu vikuna ásamt tólf öðrum kylfingum.

Ingvar Andri Magnússon og Viktor Ingi Einarsson voru á dögunum valdir til að keppa fyrir hönd Íslands á Alþjóðaleikum ungmenna. Mótið fer fram í Hollandi í sumar. Fararstjóri og þjálfari í ferðinni verður David Barnwell golfkennari GR.

Þann 14. febrúar munu 21 kylfingur úr afreksstarfi GR halda í níu daga æfingaferð til Costa Ballena á Spáni. Þeir sem voru valdir í ferðina eru þeir sem eru innan forgjafar viðmiðunar GSÍ um afreksefni. Ferðin er mikilvægur þáttur í að hjálpa kylfingunum í að bæta sig og sjá hvar þeir standa eftir þrotlausar æfingar í vetur.

Óskum öllum þessum kylfingum góðrar ferðar og góðs gengis í þessum verkefnum.“