Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 29. 2015 | 11:40

GR: Halldóra Steingrímsdóttir með besta skorið á 2. púttmóti GR-kvenna – 26 pútt

Á heimasíðu GR má lesa eftirfarandi frétt frá kvennanefnd Golfklúbbs Reykjavíkur:

Það var frábær mæting á annað púttkvöld okkar GR kvenna á nýju ári. Tæplega 150 konur mættu og það virðist engu skipta hvernig viðrar, konur mæta og eru með, því þær eru félagsverur og hafa gaman af því að pútta saman. Sérstaklega var gaman að sjá mörg ný andlit að ekki sé talað um að heyra hláturinn óma um golfskálann okkar í Korpunni.

Völlurinn stríddi sumum okkar en margar rúlluðu upp hringjum á frábæru skori. Halldóra M Steingrímsdóttir átti besta skor kvöldsins var á 26 höggum. Fleiri fylgdu fast á eftir en á toppinn í þessari viku skaust hún Nanna Björg sem er á 55 höggum eftir tvo hringi.

Púttmótaröðin er styrkt af Cross en eins og við þekkjum vel þá eru Cross vörurnar vandaður golffatnaður sem hentar vel íslenskum aðstæðum.

Næsta púttkvöld verður á þriðjudag eftir viku, hlökkum til að sjá ykkur sem flestar og minnum á að húsið opnar kl. 18.00. Það er oft þröngt á þingi á þeim tíma og fyrir þær sem geta mætt seinna þá er oft rólegra um kl. 19.30.

Til að auðvelda okkur vinnuna við að skrá skor þá væri vel þegið að fá skorkortin vel merkt og undirrituð af leikmanni og ritara.

Fyrir þær sem ekki hafa greitt þá kostar 3000 kr að taka þátt í mótaröðinni. Við höfum ekki posa svo takið með ykkur seðla.

Meðfylgjandi er skorið að loknum tveimur púttkvöldum

kær kveðja
kvennanefndin

Tengd skjöl – Sjá má stöðuna með því að smella á tengilinn hér að neðan:

Cross púttmótaröð GR kvenna – 1. & 2. umferð.