Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2016 | 14:00

GR: Bréf frá formanni

Á heimasíðu Golfklúbbs Reykjavíkur má lesa eftirfarandi bréf formanns klúbbsins:

Nú eru tvær vikur í sumardaginn fyrsta og sól farin að hækka á lofti. Það er stutt í opnun golfvalla Golfklúbbs Reykjavíkur og því við hæfi að ég upplýsi félagsmenn í GR um ýmislegt sem á daga okkar hefur drifið frá því ég skrifaði ykkur í síðasta mánuði.

Það sem vafalítið vekur mestan áhuga félagsmanna er ástand golfvallanna okkar. Það er skemmst frá því að segja að þeir koma ljómandi vel undan vetri. Mikil og góð vinna vallarstarfsmanna í vetur og ljómandi gott vor hefur séð til þess. Flatir eru flestar hverjar í mjög góðu ástandi, áburðargjöf er hafin og ef apríl heldur áfram að vera sæmilega hlýr og mildur munu vellir taka á móti okkar í fantaformi í byrjun maí þegar stefnt er að opnun.

Nýverið gekk til liðs við okkur GR-inga nýr og öflugur golfkennari, Andrés Jón Davíðsson. Andrés er enginn nýgræðingur í faginu en hann er meðal okkar best menntuðu og reynslumestu kennara. Andrés hefur til dæmis unnið mikið með Birgi Leif Hafþórssyni, einum okkar fremsta kylfingi. Andrés er vel tækjum búinn og býður hann félagsmönnum m.a. að fá greiningu á sveiflunni sinni í svokölluðu „flightscope“. Nánari upplýsingar um námskeið Andrésar má finna hér.

Æfingar barna- og unglingastarfsins hafa verið öflugar í vetur og er hópurinn m.a. nýkominn heim úr æfingaferð sem farin var til Spánar og heppnaðist virkilega vel. Við hjá GR leggjum mikla áherslu á að fjölga í barna og unglingastarfinu og vil ég hvetja foreldra í klúbbnum til að leyfa börnum sínum að prófa æfingar hjá GR. Þangað eru allir velkomnir. Allar upplýsingar um æfingatímana má finna hér.

Í vetur hefur verið unnið mikið og gott starf við snyrtingu valla. Verkefni eins og grisjun skóga, til að leyfa fallegum trjám að njóta sín enn betur á völlunum okkar, lagning nýrra göngustíga á Korpunni, snyrting svæða og svo mætti lengi telja. Það verður gaman að opna vellina fyrir ykkur innan skamms og leyfa ykkur að sjá með eigin augum það sem unnið hefur verið að í vetur.

Eitt af lykilverkefnum stjórnar GR er að hámarka tekjuöflun félagsins. Þar ber hæst að sækja nýja félaga, en í fyrra voru um 100 sæti laus í klúbbnum. Það verkefni hefur gengið virkilega vel og er full ástæða til að hrósa starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf. Fjölmargir einstaklingar hafa skráð sig í klúbbinn og er nú svo komið að biðlisti er farinn að myndast í Golfklúbb Reykjavíkur.

Á skírdag misstum við GR-ingar góðan félaga, en þá lést Hinrik Gunnar Hilmarsson eftir baráttu við krabbamein. Hinni starfaði lengi fyrir GR, sem sjálfboðaliði, dómari og vallarvörður. Hann skilur eftir sig stórt skarð í félaginu og verður hans sárt saknað. Fjölskyldu og aðstandendum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Að lokum þykir mér rétt að minnast á flotta byrjun atvinnumannaferils Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur. Hún hóf þann feril á LET mótaröðinni á Spáni um síðustu helgi. Ólafía spilaði virkilega vel, sérstaklega lengi framan af á lokahringnum en 3 skollar á lokaholunum skyggðu þó aðeins á það. Niðurstaðan var hins vegar mjög flott, 16. sæti á sínu fyrsta móti og ætti að vera henni gott veganesti fyrir komandi mót. Við sendum henni hlýja strauma með ósk um góða spilamennsku.

Næst þegar ég sendi ykkur línu verður það til þess að tilkynna um opnun valla, ég hlakka til og veit að það gerið þið líka.

Björn Víglundsson,
Formaður