Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 1. 2012 | 06:00

GOS: Hlynur Geir kylfingur ársins og Símon Leví hlaut háttvísibikar á aðalfundi GOS

Á heimasíðu GOS er eftirfarandi fréttatilkynning:

„Aðalfundur  Golfklúbbs Selfoss var haldin fimmtudaginn 26. janúar (2012).

Á fundinum voru afhentar viðurkenningar fyrir afrek sumarsins. Símon Leví Héðinsson fékk háttvísisbikarinn. Bikarinn er veittur ár hvert þeim kylfingi undir 20 ára aldri, sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem stjórn Golfklúbbs Selfoss vill sjá hjá unglingum. Sá sem hlýtur háttvísisbikarinn þarf að hafa, mikinn íþróttaanda, gefast aldrei upp, sýna miklar framfarir, mikla ástundun, vera sér og klúbbnum til mikils sóma, bæði innan vallar sem og utan og vera með framkomu sinni fyrirmynd fyrir aðra.

Kylfingur ársins var valinn Hlynur Geir Hjartarson, en hann vann meistaramót GOS og hefur verið einn fremsti kylfingur landsins.

Andri Páll Ásgeirsson var valinn efnilegasti kylfingurinn. Andri Páll náði miklum framförum í sumar og lækkað mikið í forgjöf með miklum æfingum.

Axel Óli Ægisson fékk bikar fyrir mestu lækkun á forgjöf. Axel lækkaði forgjöf sína úr 36 í 19,5 og er það lækkun um 16,5 högg. Glæsilegur árangur hjá Axel.

58 kylfingar lækkuðu í forgjöf síðasta sumar.

Elsti golfarinn í GOS sem skilaði inn skori var Ingólfur Bárðarson fæddur 1934 en yngsti golfarinn í GOS sem skilaði inn skori var Sverrir Óli Bergsson, en hann er fæddur 2004. Það er því 70 ára aldursmunur á þeim.

Bárður Guðmundarson var endurkjörinn, sem formaður í eitt ár, öll stjórnin gaf aftur kost á sér fyrir utan Pétur Hjaltason, sem hefur verið gjaldkeri í 9 ár. Jens Uwe Friðriksson tekur við af honum sem gjaldkeri og Benedikt Magnússon kemur inn í stjórn. Fyrir sitja Jónbjörg Kjartansdóttir ritari og Halldór Morthens.

Tekjur klúbbsins jukust töluvert, en því miður gerði kostnaður það líka, svo tap 2011 var 2,305,946. Tekið verður verulega á fjárhag GOS 2012.“