Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2013 | 11:00

Gonzalo finnst að skylda ætti þá sem komast í Seve Trophy að spila

GONZALO FERNANDEZ-CASTAÑO segir að skylda ætti þá sem kæmust í lið í Seve Trophy til þess að spila

Leikmannanefnd Evrópumótaraðarinnar hittist á fundi í Portúgal í þessari viku og nr. 55 á heimslistanum vill að málið verði tekið upp á fundinum.

Ian Poulter, Rory McIlroy, Luke Donald, Lee Westwood, Graeme McDowell, Justin Rose, Sergio Garcia og Henrik Stenson kusu allir að spila ekki á Seve Trophy í París s.l. helgi og hinn 32 ára Gonzalo Fernandez-Castano vill að þeir hafi ekki þetta val í framtíðinni.

„Seve Trophy snýst um liðsanda og holukeppni. það er þess vegna sem ég get ekki enn trúað því að allir bestu kylfingar í liði Meginlandsins voru ekki þarna til þess að styðja við bakið á liðinu,“ sagði Gonzalo, sem oft er nefndur Gonzo af vinum sínum.

„Ég veit ekki hvað við getum gert en kannski ætti bara að vera skylda að spila. Seve Trophy er mikilvægur fyrir Evrópumótaröðina vegna þess að það snýst um að kynnast betur því að spila í golfliði. Ég hef ekki spilað í liði í langan tíma, allt frá því ég var áhugamaður.“

„Þetta snýst um að láta sér lynda við liðsfélagana og það er vegna þess sem ég held að lið Meginlandsins hafi staðið sig vel í ár undir frábærri forystu José María (Olázabal). Thomas Björn hélt líka frábæra ræðu á laugardagskvöldið og það er alltaf frábært að vera nálægt þessum golfgoðsögnum.“

„Ég vona að þetta mót haldi áfram þar sem Evrópumótaröðin þarfnast þess. Það er vegna þessa móts sem okkur gengur svo vel í Ryder Cup.“

„Við erum með leikmannanefnd,sem kemur saman í Portúgal í þessari viku þar sem við getum rætt þessi mál. Málið er ekki á dagskrá en kannski mun einhver ljá því máls, þar sem við þurfum að gera eitthvað til þess að vernda framtíð mótsins.“

Thomas Björn, sem hlaut svo hástemmt lof Gonzo og eins fyrir frammistöðu sína á Seve Trophy í ár, hafði meiri samúð með þeim leikmönnum sem ekki tóku þátt.

„Við verðum að skilja það sem strákarnir í Bandaríkjunum ganga í gegnum. Þeir koma úr óhemju erfiðri dagskrá í Bandaríkjunum og þar sem mót eru með stuttu millibili er það mjög erfitt fyrir þá að keppa (og þvælast til Evrópu í millitíðinni),“ sagði Daninn 42 ára (Thomas Björn).

„Eitt markmið Seve Trophy er að reyna að byggja upp skilning á Ryder bikarnum hjá þeim sem ekki hafa spilað í Ryder Cup. Ég skil að stóru nöfnin hafi ekki spilað, ég hef fyllsta skilning á því.“

Ryder Cup fyrirliðinn Paul McGinley var líka tregur að taka undir uppástungur þess efnis að leikmenn ættu að vera skyldaðir að spila í Seve Trophy, en kallaði þess í stað eftir sterkari styrktaraðilum.

„Ég held ekki að við verðum að fara þá leið (að skylda þá sem komast í liðið að spila) – allt sem við þörfnumst er góðan styrktarðila,“ sagði McGinley. „Það væri líka gaman að sjá viðburðinn skiptast á að fara fram á Bretlandi, Írlandi og á Meginlandinu.“

„Seve Trophy er góður til að læra af fyrir leikmennina, fyrirliða Ryder bikarsins og fyrirliða framtíðarinnar í Ryder bikarnum. Þeir geta lært af þessari viku allt eins mikið og ég hef gert.“

———————–

Eitt af því sem ekki er til umræðu í ofangreindu er hvernig fara á að því að „skylda“ leikmenn sem ekki vilja taka þátt til að spila í Seve Trophy? Flestar stjórstjörnurnar sem ekki spila eru vel efnaðir kylfingar, sem ekki láta segja sér fyrir verkum.  Það yrði því að finna viðurlög við því að taka ekki þátt.  Eitt af því sem hefir borið á góma er að þeir sem ekki taki þátt í Seve Trophy fái heldur ekki að keppa í Ryder bikarnum fyrir Evrópu.

En hvar værum við stödd þá? Ef jafnvel aðeins fáeinar stjörnur myndu þráast við og ekki taka þátt í Seve Trophy og þ.a.l. ekki fá að spila í  Rydernum, þá myndi Evrópa ekki hafa á að skipa sínu sterkasta liði í Rydernum.

Og hvað Seve Trophy varðar: Hver vill vera í liði með kylfingum sem ekki vilja vera þar? Það hlýtur að vera ákaflega erfitt.

Það er leitt að stórstjörnurnar tóku ekki þátt og reyndar alveg afleitt – því í svona virðulegri keppni sem Seve Trophy ættu bæði lið að sjá metnað sinn á hverjum tíma í að tefla fram sínu sterkasta liði.  En lengra komumst við ekki með það.  Það góða í því er, að það er sægur af kylfingum sem fær tækifæri til að keppa í liðakeppni sem Seve Trophy og e.t.v. einhverjir sem slá þvílíkt í gegn þar,  að erfiðara verður fyrir stjörnurnar, sem ekki taka þátt og ávinna sér ekki sjálfkrafa keppnisrétt að komast í Ryder bikars liðið.  Það eitt ætti að vera stjörnunum umhugsunarefni.

Í þeirri keppni sem nú er afstaðinn stóð Ítalinn ungi Matteo Manassero sig t.a.m. ákaflega vel og gæti hann eflaust velkt einhverri stjörnunni, sem telur sig örugga í Ryder bikars lið Evrópu undir uggum; þegar í ljós kemur að hún á ekki fast sæti og er upp á náð og miskunn fyrirliðans komin.