Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 3. 2013 | 08:00

Golfvellir í Sviss (2/102): Golf Club Villars

Villars golfklúbburinn er í litla bænum Villars-sur-Ollon. Hann er ekki langt frá Genf, aðeins í 123 km fjarlægð og trónir 1300 metra yfir sjávarmáli. Sé bílaleigubíll tekinn ætti með auðveldum hætti að vera hægt að keyra frá Genf til Villars á 1 1/2 klst. (þ.e. einni og hálfri klukkustund), meðfram Genfarvatni, en leiðin er gullfalleg. Nú hefir aldrei verið auðveldara að spila golf í Sviss, en Icelandair flýgur beinustu leið til Genfar og þar má leigja sér bíl og spila golf hvar sem er á einum af 102 golfvöllum Sviss. (Sjá auglýsingu Icelandair um nýja golfáfangastaðinn Genf, efst í hægra horni Golf 1 vefsíðunnar.)

Villars-sur-Ollon í tunglskini.

Villars-sur-Ollon í tunglskini.

Kannski svolítið undarlegt að byrja kynningu á völlum „nálægt Genf“ á einum sem er svo langt í burtu uppi í fjöllunum, en ferðin er svo sannarlega þess virði. Sé ætlunin að vera 1 viku í Genf, mætti byrja á Villars og þræða vellina tilbaka til Genf en í þessari 1 1/2 tíma ökuferð er keyrt framhjá mörgum flottum völlum, „sem mætti taka í bakaleiðinni,“ a.m.k. ætti ekki að vera skotaskuld að spila Villars og síðan 2-3  aðra golfvelli, eða jafnvel fleiri (eftir því sem nenna, úthald, geta og fjárhagur leyfa) á bakaleiðinni, ef verja á einhverjum tíma síðan í Genf, sem auðvitað allir ættu að gera, en það má líka spila á völlum nær Genf og verða þeir vellir kynntir hver af öðrum á Golf 1.  En svona 2-4 daga bíltúr upp í svissnesku Alpanna með inniföldu golfvallarhoppi, verður öllum eftirminnileg.  Kosturinn við svona ferð er að allir geta pússlað saman hvaða golfvelli þeir vilja spila og hversu miklum tíma á að verja á hverjum stað.  Verið bara lengur þar sem ykkur líkar, en hættan er á að íslenskir golfferðamenn ílengist og sjái þá bara 1 golfvöll í Sviss, því þeir eru allir mjög góðir og viðgjörningur (matur & gisting) á flestöllum stöðum frábær. Munið bara að ef ykkur á að endast ævin í að spila bara alla golfvelli í Sviss verður að spila fleiri en 1.

Villars í Sviss er kven-kylfingavænn völlur!

Villars í Sviss er kvenkylfingavænn völlur!

Villars golfklúbburinn var stofnaður 1922, en þá var golfvöllurinn aðeins með 9 holur. Hann var stækkaður árið 1973 (þ.e. fyrir 40 árum) í 18 holur og fluttur ofar þ.e. í 1660 metra hæð.  Þann 1. september 1991 eyðilagðist klúbbhúsið þegar með saknæmum hætti var kveikt í því, en staðurinn var þá vinsæll áfangastaður stjarna á borð við Alain Prost, Jacques Lafitte, Patrick Tambay o.fl. sem þátt tóku í Pro-Am mótum.

Klúbbhúsið var að fullu endurbyggt 1995. Árið 2002 voru 9 holur vallarins endurgerðar og nú er völlurinn keppnisvöllur af hæsta standard.  Klúbbmeðlimum hefir farið fjölgandi og í dag eru þeir yfir 500.

Af 1. teig er gullfallegt útsýni yfir Mont Blanc og ekki margir golfvellir í heiminum, sem geta státað af útsýni á hæsta fjall Evrópu.

Útsýnið frá 1. teig á Villars golfvellinum

Útsýnið frá 1. teig á Villars golfvellinum

Villars golfvöllurinn er nú í dag 18-holu par-70 fjallagolfvöllur, 5288 metra langur og eins og segir í 1600 metra hæð yfir sjávarmáli. Völlurinn er opinn, líkt og margir golfvellir á Íslandi, frá maí og til októberloka.

Upplýsingar: 

Heimilisfang: Route du Col-de-la-Croix – Case postale 118, CH – 1884 Villars-sur-Ollon

Sími. : +41 24 495 42 14

Fax : +41 24 495 42 18

Tölvupóstfang : info@golf-villars.ch

Heimasíða: SMELLA HÉR: