Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 9. 2013 | 16:00

Golfvellir í Frakklandi: Golf de la Boulie (9/10)

Golf de la Boulie er hluti af einum stærsta íþróttaklúbbi í Frakklandi, Racing Club de France  (RCF) og eru allar aðstæður til golfiðkunar fyrsta flokks.  Klúbbnum tilheyra tveir 18-holu vellir og einn 9 holu golfvöllur, sem virkilega eru þess virði að fara hring á.  Golfklúbburinn er í um 20 km fjarlægð í SV frá miðborg Parísar.

1-mages-1

Klúbbhúsið og allar aðstæður eru til fyrirmyndar.  La Vallee er sá eldri og styttri af 18-holu völlunum, par-72, 5995 metra.  Hann er hannaður árið 1901 af skoska golfvallarhönnuðnum Willie Park Jr. (sjá grein Golf 1 um þann golfvallarhönnuð með því að SMELLA HÉR (1. hluti):  og SMELLA HÉR (2. hluti):  La Vallee er yndislegur skógarvöllur og svolítið bylgjótt landslag með nokkrum hæðum og svolítið upp og niður golf en aldrei þannig að það verði þreytandi.  La Vallee er líka fallegur en einkenni vallarins eru m.a. að mikið er af alparósum á honum.  Annað sem verður eftirminnilegt eru par þristarnir en þeir eru flestir vel varðir af glompum, þannig að stundum minnir á linksara, og kennir þar áhrifa Park; svolítið einkennileg tilfinning því maður er jú að spila skógarvöll í miðju Frakklandi. Flatirnar eru fremur hraðar.

Frá La Vallee golfvellinum í Golf de la Boulie

Frá La Vallee golfvellinum í Golf de la Boulie

Yngri völlurinn (La Boulie Foret) er hannaður af Jacques Roussel árið 1968. Þetta er par-72 völlur, 6247 metra af aftasta teig. Einkenni vallarins eru einkum fremur breiðar brautir og stórar flatir, sem eru allt eins hraðar og í La Vallee. Karginn er ekki þykkur og frekar auðvelt að finna boltann sinn skyldi hann nú ekki lenda á braut. Eins og nafnið á vellinum bendir til er La Boulie Foret skógarvöllur og miklu flatari allur en La Vallee, en líkt og á eldri vellinum eru allt eins margar glompur á La Boulie Foret vellinum.  Mjög skemmtilegar brautir á La Foret eru par-5 10. dogleg brautin og eins par-4 15. dogleg brautin.  Þess ber að geta að ef ætlunin er að spila La Boulie vellina að sumri til og mjög heitt er í veðri er þægilegra að spila La Boulie Foret þar sem skuggsælara er þar, auk þess sem völlurinn er léttari undir fótinn.

La Boulie Fôret

La Boulie Fôret

Upplýsingar:

Heimilisfang: Gof de la Boulie, Racing Club de France, Rue de Colbert, Versailles, Ile-de-France, F- 78000 Frakkland.

Sími: 33 (0) 1 39 50 59 41 (skrifstofa)

Sími: 33 (0) 1 39 49 92 77 (pro shop)

Fax: Sími: 33 (0) 1 39 50 04 16

Email: golfdelaboulie@rcf. asso.fr

Heimasíða: SMELLIÐ HÉR: