Ragnheiður Jónsdóttir | október. 25. 2013 | 19:55

Golfvellir í Frakklandi: Saint Cloud (2/10)

Nú er komið að kynningu Golf 1 á golfvelli nr. 2 í kringum París, í Frakklandi.  Hér í kvöld verður fjallað um uppáhaldsvöll Steinunnar Sæmundsdóttur, GR, erlendis en Steinunn er margfaldur klúbbmeistari GR og  Íslandsmeistari í golfi. Uppáhaldsgolfvöllur Steinunnar erlendis er Saint Cloud í París, sjá með því að SMELLA HÉR: 

Saint Cloud á einmitt 100 ára afmæli í ár en 100 ár eru frá því að hann opnaði eða 1913. Hönnuður vallarins er Harry Colt.

Græni völlurinn á St. Cloud

Græni völlurinn á St. Cloud

Á staðnum eru tveir golfvellir. Keppnisvöllurinn þ.e. Græni völlurinn (Vert) er 18 holu skógarvöllur, par-71, 5914 metra af öftustu teigum.  Þetta er fremur flatur völlur og auðveldur undir fótinn fyrstu 7 holurnar en síðan breytist það drastískt næstu 8 holurnar, en þá verður völlurinn hæðóttur, það er mikið upp og niður og afar hann er krefjandi. Það er frábært útsýni yfir París á nokkrum stöðum af vellinum, en trén eru það há og laufguð á sumrin að þess verður ekki notið, en völlurinn er aðeins opinn júlí og ágúst fyrir almenning. Athugið að alltaf er lokað á mánudögum, bóka þarf fyrirfram og sýna þarf skilríki um forgjöf.

Sex hæða klúbbhúsið, styttri (4824 metra par-67) Guli völlurinn (Jaune) og frábær æfingaaðstaða á staðnum gera St. Cloud að mjög vinsælum og eftirsóttum golfstað, og gaman er að spila vellina þar aftur og aftur og aftur …. Harry Colt tókst vel upp, þótt búið sé að lagfæra og endurgera báða vellina mikið frá upprunalegri gerð.

Klúbbhúsið í St. Cloud

Klúbbhúsið í St. Cloud

Saint Cloud var á árunum 1926 til 1987 mótsstaður Opna franska meistaramótsins (ens. French Open Championship). Meðal sigurvegara á mótinu voru Jose Rivero (1987) og Bernhard Langer (1984). Meðal annarra sigurvegara Opna franska á St. Cloud eru Sir Henry Cotton, Roberto di Vicenzo og Greg Norman.

Upplýsingar:

Heimilisfang: Golf de Saint Cloud, 60 Rue du 19 Janvier, Garches, Ile-de-France, F-92380.

Símanúmer: 33-(0)-1-47-01-01-85 (skrifstofa og Pro Shop);  33-(0)-1-47-01-19-57 (fax)

Heimasíða: SMELLIÐ HÉR: