Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 7. 2011 | 19:00

Golfvellir á Spáni: Aloha Golf Club í Marbella

Hér verður í stuttu máli fjallað um Aloha Golf Club í Marbella, en golfvöllur klúbbsins er uppáhaldsgolfvöllur Guðmundar Sveinbjörnssonar, GK, sem Golf 1 birti viðtal við í gær.

Aloha Golf Club er beint á móti Puerto Banús og maður kemst þangað eftir hinni góðkunnu N-340, sem flestir kannast við sem spilað hafa golf á Costa del Sol. Klúbburinn er í 4 km fjarlægð frá Marbella.

Golfvöllur Aloha Golf Club er hannaður af Javier Arana, sem er einn virtasti golfvallarhönnuður spænskra golfvalla en meðal golfvalla sem hann hefir hannað eru El Saler í Valencia og El Prat í Barcelona. Aloha Golf er síðasta verk Arana, en hann dó 1975 rétt fyrir opnun golfvallarins.

Frá Aloha Golf Club í Marbella

Aloha Golf Club var vígt 25. október 1975 af forseta konunglega golfsambands Andaluciu, Angel de la Riva og sló hann fyrsta höggið á vellinum.

Mjög snemma var bætt við par-3 9 holu golfvelli, sem hannaður var af Enrique Canales, en hann ásamt Miguel Angel Jimenez og Diego Borrego er heiðursfélagi klúbbsins.

Klúbburinn er þekktur fyrir stórmót sem þar hafa farið fram, m.a. meistaramót áhugamanna Spánar (ens. Spanish Amateurs Championship) 1978 og Golfeinvígið milli Spánar og Englands 1993, Andalucia Open 2007 og 2008.  Árið 2007 vann Lee Westwood og setti vallarmet, sem enn stendur 65 högg og 2008 vann Frakkinn Thomas Levett í spennandi leik gegn hinum 19 ára gamla Oliver Fisher.

Aloha

Eins hafa margir þjóðhöfðingjar heimsótt og spilað völlinn og af fjölmörgum mætti nefna, Juan Spánarkonung, Klaus prins af Hollandi og Edward Bretaprins og eins frægar stjörnur á borð við Sean Connery.

Aloha

Núverandi forseti klúbbsins er Rafael Fontán Zubizarreta.

Þegar Aloha völlurinn er spilaður finnst manni maður spila í fallegum skrúðgarði fullum af suðrænum trjám og blómum.  Trén mynda jafnframt frábærar hindranir og karginn þykir erfiður.

Hönnunin þykir framúrskarandi og er í fullkomnu jafnvægi. Fimm brautir vallarins eru langar (1., 4., 10., 13. og 18.) þar sem mest reynir á styrk og nákvæmni.   Á hinum brautunum reynir meira á tækni og strategíu til þess að ná bestum árangri. Á vellinum eru líka mörg óvænt „leyndarmál.”  Til þess að leysa þau verður maður að smella sér í golf til Spánar.

Fyrir þá sem komast ekki strax er hægt að skoða gullfallegar myndir af Aloha Golf Club á heimasíðu klúbbsins, smellið HÉR: