Ragnheiður Jónsdóttir | október. 26. 2012 | 08:00

Golfvellir á Kýpur: Minthis Hills

EM klúbbaliða fer nú fram á Minthis Hills golfvellinum á Kýpur og tekur karlasveit GKG þátt og gengur vel.  Það er því ekki úr vegi að fræðast aðeins um Kýpur og golfvellina þar og verður hér fjallað um Minthis Hills, þar sem mótið fer fram.

Kýpur (gríska: Κυπριακή Δημοκρατία) er eyjan, þar sem Afródíta, gyðja ástar og fegurðar fæddist. Kýpur er 3. stærsta eyjan og sú austasta í Miðjarðarhafinu, hún liggur suður af Tyrklandi og í norðvestan við Líbanon og Sýrland.

Minthis golfvöllurinn merktur inn á Kýpur – Þar fer EM klúbbaliða fram um þessar mundir

Kýpverjar hlutu sjálfstæði frá Bretum 1959 og hefur norðurhluti eyjunnar verið undir stjórn Tyrklands en suðurhluti undir stjórn Grikkja.

Kýpur fékk aðild að Evrópusambandinu 1. maí 2004.

Eyjan er 9.251 ferkílómetra að stærð; íbúafjöldi er 801.851 og höfuðborgin heitir Nikósía.

Veðurfar á Kýpur er gott allan ársins hring; hitastig fer sjaldan niður fyrir 15° C, en sumrin eru heit og þurr, með hita allt upp undir 37°, þótt aðeins kaldara sé upp í Trodoos-fjöllum, sem eru fyrir miðju eyjunnar.

M.a. vegna hagstæðs veðurfars síns er Kýpur tilvalinn áfangastaður golfferðalanga.

Þegar spilað er golf á Kýpur er best að vera einhvers staðar í kringum bæinn Paphos í suður-hluta (gríska hluta) Kýpur.

Í næsta nágrenni við bæinn eru 4 af 8 golfvöllum Kýpur: Afródítuhæðir; Secret Valley-golfklúbburinn (Old og New Course) og sá sem til umfjöllunar er í dag: Minthis Hills, sem áður hét Tsada golfklúbburinn.

Frá Minthis Hills golfvellinum

Minthis Hills eru bara í 20 mínútna akstursfjarlægð frá Paphos.

Miklar endurbætur hafa átt sér stað á þessum fyrsta grasgolfvelli Kýpur, sem opnaður var 1994.

Golfvöllurinn á Minthis Hills er 18 holu keppnisvöllur, par-72, 6060 metra af öftustu teigum, byggður á jörðum gamals munkaklausturs frá 12. öld.

Frá Minthis Hills golfvellinum

Donald Steel hannaði völlinn, sem er 500 metra yfir sjávarmáli, sem tryggir að ávallt er frískandi vindur á vellinum, sem er sérlega velkominn þegar spilað er yfir heitustu sumarmánuðina.

Hjá vellinum er æfingasvæði, 2 púttflatir, pitch/chip svæði og æfingasandglompur. Hægt er að fara í tíma til golfkennara á staðnum og eins er golfverslun, með öllu nýjustu golfvörunum.

 Klúbbhúsið er glæsilegt, nýenduruppgert – þar er veitingastaður, bar og búningsherbergi karla og kvenna. Þeim, sem kunna að vera í félagsskap golfara, sem ekki spila golf, geta farið í tennis á staðnum og er leyfður aðgangur að útisundlaug staðarins – eins geta kylfingar spilað tennis fyrir eða eftir golfleik, ef þess er óskað eða skellt sér í sundlaugina eftir hring.

Frá Minthis Hills golfvellinum á Kýpur – Klúbbhúsið sést í bakgrunni

Á staðnum er golfbílaleiga, leiga á rafknúnum golfkerrum, hægt er að leigja sér skáp í buningsherberginu og golfkylfur í 1 dag hvert sinn, sé þess óskað.

Forgjafarkrafa á karla er 28 og konur 36.

Til þess að skoða heimsíðu Minthis-Hills  SMELLIÐ HÉR: 

Ofangreint er byggt á 2 greinum greinarhöfundar sem hafa áður birtst á iGolf, 14. og 20. apríl 2010.