Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 26. 2020 | 12:00

Golfvellir á Írlandi: Kilorglin golfklúbburinn lokar

Killorglin golfklúbburinn,  sem státaði af einu fallegasta útsýni írskra golfklúbba í Kerry hefir lokað eftir 28 ára starfsemi.

Ekkert er sagt um lokunina á heimasíðu klúbbsins né á vefsíðu golfsambands Írlands, en klúbburinn var leystur upp sl. helgi.

Það voru félagsmenn klúbbsins, sem yfirtóku reksturinn úr hendi upprunalegs eiganda, Billy Dodd, árið 2018 og báru ábyrgð á mótahaldi og veitingum, sem og viðhaldi á vellinum og rekstur klúbbhússins.

Lokað var áður en stjórnir GUI og ILGU tilkynntu ákvörðun sína um að öllum klúbbum á Írlandi skyldi lokað til 19. apríl n.k. vegna Covid-19.

Ljóst var að Covid-19 og þ.a.l. minnkandi innkoma af golftúrisma hafði þá þegar gert út um rekstur Kilorglin klúbbsins.

Kilorglin opnaði 1992 og er fallegur 18 holu par-72 skógarvöllur, sem hannaður er af írska golfarkítektinum Eddie Hackett. Hann hefir hlotið frábæra dóma allt frá því hann opnaði ekki aðeins vegna gæða vallarins heldur einnig vegna glæsiútsýnis yfir Dingle flóann og MacGillicuddy’s Reeks fjallgarðinn.