Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 6. 2012 | 21:30

Golfvellir á Spáni: í Cádíz nr. 4 – Alcaidesa

Alcaidesa golfvöllurinn er við Gíbraltar klettinn og að spila þennan völl verður hverjum og einum ógleymanlegt.  Þegar ég spilaði völlinn 2007 fannst mér eins og ég hlyti að vera eini Íslendingurinn sem hefði spilað völlinn. RANGT!!! Ekki aðeins hafa þó nokkrir Íslendingar spilað þennan gullfallega, ósnortna völl með ægifagurt útsýni á Gíbraltar heldur er a.m.k. einn Íslendingur  klúbbfélagi í Alcaidesa.

Alcaidesa golfvellirnir eru 2 x 18 holu vellir annars vegar Alcaidesa Links og hins vegar Alcaidesa Heathland.  Báðir vellirnir eru framúrskarandi, en gamli linksarinn, sem er svo líkur skoskum velli að undrum sætir, á sér fáa líka.

Alcaidesa er syðsti 18 holu linksari meginlands Evrópu. Völlurinn sem er 5.866 metra er eiginlega vestast á Costa del Sol og í mikilli nálægð við fræga velli sem kynntir verða síðar, Sotogrande og Valderrama, þar sem Ryder Cup keppnin fór fram 1997.

Alcaidesa Links völlurinn var hannaður af Peter Aliss og Clive Clark og opnaði 1992. Hann liggur meðfram Miðjarðarhafsströndinni, um sandhóla og smáar tjarnir innan um villta náttúruna.  Útsýnið eins og segir er hvergi fegurra á Gíbraltarklettinn en frá Alcaidesa en eins er útsýni yfir Miðjarðarhafið og jafnvel Atlas fjöll Norður-Afríku.  Það er sjaldgæft að spila golf á velli sem veitir eins mikla frelsis og afslöppunartilfinningu og Alcaidesa Links.

Frá því að Alcaidesa linksarinn opnaði hafa a.m.k. 3 PGA mót verið haldin á vellinum og „Junior leikarnir“ sem fram fóru samhliða Ryder Cup 1997.

Alcaidesa Heathland er síðari tíma viðbót. Hann var hannaður af fyrrum Ryder Cup kylfingnum Dave Thomas. Völlurinn er 6.373 metra langur í mjög fjölbreyttu landslagi allt fá flötum brautum (holur 1-5 og 17 og 18) að þeim þar sem landlagið er undnara og brattara. Margar vatnshindranir eru á Alcaidesa Heathland.

Klúbbhúsið og veitingastaðurinn sérstaklega veröndin eru hugguleg en pro-shopið frekar lítið en vellíðunarþátturinn bætir allt upp í því efni. Í fyrra var Alcaidesa golfstaðurinn talinn meðal 20 bestu í Evrópu af Golf World.

Hér má sjá uppdrátt af völlunum:

 

 

Upplýsingar um Alcaidesa:

Til þess að komast á heimasíðu Alcaidesa smellið HÉR: 

Heimilisfang: Ctra N-340, Km 124,6 La Linea, 11315 Cádiz.

Sími: + 34 956 791040

Fax: + 34 956 791041

Tölvupóstfang: golf@alcaidesa.com