Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 26. 2013 | 09:00

Golfreglur: Lausung

Nú þegar golftímabilið fer að hefjast og kylfingar landsins streyma á golfvellina, sem fara að opna hver á fætur öðrum í næsta mánuði þá er e.t.v. rétt að rifja upp golfreglurnar.

Það verður gert hér á Golf1 í raunhæfum dæmum, sem kylfingar geta glímt við en svörin eru jafnframt gefin upp við hverri spurningu.

Raunhæft dæmi:

Leikmaður tekur þátt í höggleikskeppni. Hann slær bolta sínum í sandglompu. Bananahýði liggur í sandglompunni og truflar sveiflu leikmanns við að leika bolta úr glompunni.  Hann tekur því upp hýðið og hendir því úr glompunni. Hvernig dæmist?

A. Þetta er vítalaust.

B. Leikmaðurinn fær 1 högg í víti.

C. Leikmaðurinn fær almennt 2 högga víti.

D. Leikmaðurinn fær frávísun.

Skrollið niður til að sjá rétt svar

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

Rétt svar: C  Leikmaðurinn fær 2 högg í víti, sbr. reglu 23-1.  Þar segir m.a.: „Að því undanskildu þegar bæði lausungin og boltinn liggja í eða snerta sömu torfæruna má fjarlægja sérhverja lausung vítalaust. [….]

Víti fyrir brot á reglu  […] Höggleikur – Tvö högg.“  

M.ö.o. ef lausung  (hér bananahýði) og bolti eru í sömu torfæru (hér glompu) og leikmaður er í höggleikskeppni þá hlýtur hann 2 högg í víti ef hann fjarlægir lausungina.

Hér mætti og benda á úrskurð 23/4 þar segir að bananahýði og annað ávaxtahýði teljist til lausungar.  Eins er vert að líta á úrskurð 23/3 þar var um að ræða hálfétna peru sem lá í glompu og perutré hvergi nærri glompunni. Spurningin var hvort peran væri hreyfanleg hindrun og því vítalaust að fjarlægja hana eða lausung, en það varðar 2 vítahöggum að fjarlægja lausung úr torfæru þegar golfboltinn og lausungin eru í sömu tofærunni?  Í úrskurðinum var talið að peran væri náttúrlegur hlutur (ens. natural object). Þegar peran hangir ekki á perutré telst peran lausung. Staðreyndin að hún er hálfétin og ekkert perutré nálægt breytir ekki stöðu perunnar… sem eftir sem áður telst lausung.