Hundar á golfvöllum – ekki óþekkt fyrirbrigði. Hér eru Paul Casey og Digby að „leika sér“ með fallega litla, hvíta boltanum á Kingsbarns. Casey reyndi að beita fortölum til að fá Digby til að láta sig fá golfboltann sinn aftur. Skyldi Digby vita að hann var „Outside Agency“ þarna?
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 19. 2013 | 10:00

Golfreglur: Af óviðkomandi á púttflöt

Nú þegar golftímabilið fer að hefjast og kylfingar landsins streyma á golfvellina, sem fara að opna hver á fætur öðrum í næsta mánuði þá er e.t.v. rétt að rifja upp golfreglurnar.

Það verður gert hér á Golf1 í raunhæfum dæmum, sem kylfingar geta glímt við en svörin eru jafnframt gefin upp við hverri spurningu.

Raunhæft dæmi: 

Keppandi  í höggleikskeppni er að pútta á einni púttflötinni í mótinu.  Á meðan bolti hans er á hreyfingu kemur hundur aðvífandi og tekur golfboltann í kjaft sér, þar sem hann heldur að um leik sé að ræða, hleypur með hann nokkra hringi á flötinni og setur hann síðan niður á holubrúninni. Hvernig dæmist?

A. Púttið telur og spila má boltanum þar sem hann liggur.

B. Púttið telur en kylfingurinn verður að láta boltann aftur þar sem hundurinn tók hann í kjaft sér og endurtaka púttið.

C. Púttið er afturkallað og leggja verður boltann aftur þar sem hundurinn tók hann í kjaft sér og endurtaka púttið.

D. Leikmaðurinn fær almennt víti og þarf ekki að klára að spila holuna. Hann fer beint  á næsta teig. Rökin fyrir því eru að óviðkomandi (aðilar) á flöt s.s. hundar eru oft tímafrekir viðureignar og tilgangurinn að hraða leik.

Til að sjá rétt svar skrollið niður

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

|

Rétt svar: C  skv. reglu 19-1b sbr. og ákvörðun 19-1/7.  Þar segir: Ef bolti leikmanns á hreyfingu er óvart sveigður úr leið eða stöðvaður af óviðkomandi er það hending og vítalaust og leika verður boltanum þar sem hann liggur nema:

a) (á við tilvik utan flatar)

b) Ef bolti leikmanns er á hreyfingu eftir högg á flötinni og er stöðvaður, stöðvast í eða á eða stefnu hans er breytt af einhverju óviðkomandi, lifandi eða á hreyfingu, öðru en ormi, skordýri eða álíka, er höggið afturkallað. Boltann verður að leggja aftur og endurtaka höggið.

Fyrir þá sem mikinn áhuga hafa á golfreglunum er rétt að láta fylgja með skýringu á hugtökunum óviðkomandi og hending:

Hending (ens. Rub of the Green)  = er það ef eitthvað óviðkomandi stöðvar boltann af slysni eða sveigir hann úr leið.

Óviðkomandi  (ens. Outside Agency) = Í höggleik er óviðkomandi allt sem ekki er lið keppandans og er ekki kylfuberi liðsins, bolti, sem liðið hefir leikið meðan leikið er um holuna eða útbúnaður þess.

Óviðkomandi nær yfir dómara, ritara, gæslumann og framvörð. Hvorki vindur né vatn teljast óviðkomandi.