Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 30. 2013 | 17:30

Golfkylfur sem morðvopn?

Næstum 5 og 1/2 ári eftir tvöfalt morð á Indlandi, sem hlaut mikla umfjöllun fjölmiðla þar í landi, hefir verið komist að niðurstöðu.  Og það var golf sem átti þátt í þeirri niðurstöðu.

Í The Times of India  kom fram að tannlæknirinn Rajesh Talwar og eiginkona hans Nupar Talwar hafi verið fundin sek um dráp á 14 ára dóttur þeirra, Aarushi, og þjóninum, Hemraj Banjade á heimili þeirra í Jalvayu Vihar árið 2008. Dómurinn byggði á kenningu settri fram af rannsóknarmiðstöð Indlands (ens. Central Bureau of Investigation (CBI) ) um að golfkylfur hr. Talwar hefðu verið notaðar til þess að fremja morðin.

Með hliðsjón af ákomum hinna myrtu þótti líklegt að golfkylfurnar hefðu verið notaðar en hr. Talwar er félagi í  Noida golfklúbbnum og var beðinn að afhenda kylfur sínar.

Réttarlæknisfræðingum tókst hvorki að finna blóð né DNA af fórnarlömbunum á kylfunum en eftir var tekið að tvær kylfnanna voru miklu hreinni en hinar. CBI þótti líka grunsamlegt að hr. Talwar faldi kylfurnar á háalofti eftir morðin.

Þetta þótti nóg til þess að styðja kenningu CBI og nægði til þess að ákæra var gefin út á Talwar hjónin fyrir að hafa hindrað framgang réttvísinnar. Dómurinn fellur n.k. þriðjudag.