Nesklúbburinn
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 4. 2014 | 12:30

Golfklúbbur Ness 50 ára í dag!!!

Golfklúbbur Ness er 50 ára í dag og óskar Golf1 klúbbnum innilega til hamingju á þessum merku tímamótum!

Á heimasíðu Nesklúbbsins segir þannig:

„Golfklúbbur Ness var stofnaður 4. apríl 1964. Frumkvöðlar að stofnun klúbbsins voru þeir Pétur Björnsson og Ragnar J. Jónsson. Fyrstu stjórn klúbbsins skipuðu þeir Pétur Björnssson, formaður, Ragnar Jónsson, ritari, Sigurjón Ragnarsson, Ólafur Loftsson og Jón Thorlacius.

Upphaf þess að Golfklúbbur Ness var stofnaður og menn fóru að iðka golf á Suðurnesi, Nesvellinum, var að árið 1963 fluttist starfsemi Golfklúbbs Reykjavíkur úr Öskjuhlíð upp í Grafarholt. Ástand golfvallarins í Grafarholti fyrstu árin var frekar slæmt og leituðu nokkrir félagar GR eftir æfingasvæði. Það var hugdetta Ragnar J. Jónssonar að fá lánuð túnin á Suðurnesi til golfiðkunnar. Þeir Pétur Björnsson fengu túnin leigð af Nesi I semvar hlutafélag og átti túnin. Nutu þeir þess að Björn Ólafsson faðir Péturs og Ágúst Fjeldsted tengdafaðir Ragnars voru meðal hluthafa í Nesi I. Í upphafi var golfvallarstæðið á helmingi Suðurnessins, suðvestur hluta þess. Túnin höfðu verið nýtt af hestamönnum. Vestast á Suðurnesi við innsiglingarmerki sem þá var uppistandandi, voru öskuhaugar Seltjarnarnesbæjar. Þar sem nú er önnur braut var æfingaskýli lögreglunar sem þá stundaði skotæfingar þar. Á núverandi æfingarsvæði voru fiskverkunartrönur og hesthús voru við Daltjörn.

Golfklúbbur Ness var einkaklúbbur og utan við Íþrótta Bandalags Reykjavíkur og Íþróttasambands Íslands. Stofnendur voru 22 og hafði meirihluti félaga aldrei spilað golf. Margir af félögum voru einnig félagar í Golfklúbbi Reykjavíkur. Vegna þessa fyrirkomulags að klúbburinn var einkaklúbbur gátu félagar í Golfklúbbi Ness ekki tekið þátt í keppni á vegum Golfsambands Íslands. Árið 1969 um mánaðarmót febrúar og mars var Nesklúbburinn stofnaður gagngert til að sækja um inngöngu í GSÍ. Á framhaldsaðalfundi 15. mars 1969 voru endanleg lög félagsins samþykkt. Í fyrstu stjórn Nesklúbbsins sátu Jón Thorlacius formaður, Ólafur Loftsson gjaldkeri og Ólafur Tryggvason ritari. Smám saman tók Nesklúbburinn við rekstri Golfklúbbs Ness. Golfklúbbur Ness ? Nesklúbburinn er núna einn klúbbur með eina stjórn.

Pétur Björnsson var eini formaður Golklúbb Ness. Hann var helsta driffjöðurinn við uppbyggingu vallarins og rekstri klúbbsins fyrstu árin. Pétur bryddaði upp á ýmsum nýjungum t.d. réði hann þrjá breska golfkennara til klúbbsins. Pétur vildi að keppendur klúbbsins og forsvarsmenn klæddust jökkum með merki félagsins saumað í barminn. Merki félagsins hönnuði þeir Ragnar J. og Pétur. Í merkinu átti að standa Nes ´64 en fyrir misskilning var nafnið prentað með eignarfallsendingunni Ness og ártalinu sleppt og hefur það staðið þannig síðan. Svo mikill var kraftur í uppbyggingu vallarins og aðstöðu að ári eftir stofnun klúbbsins var nýr golfskáli vígður við hátíðlega athöfn þar sem gestir voru meðal annars borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi.

Golfvöllurinn var í upphafi níuholu völlur par 35 og 2380 m langur. Á honum var fyrsta vatnstorfæra á íslenskum golfvelli þ.e. Búðatjörn og á sömu braut fyrsta glompa sem gerð var. Þessi glompa er enn til á núverandi áttundu braut. Árið 1994 var völlurinn stækkaður með nýjum brautum kringum Daltjörn. Völlur er núna 9 holur, par 36 og 2646 m langur og erfiðleika stig 69,2/125. Árið 2003 var brautum vallarins gefin nöfn eftir helstu fuglategundum sem heiðra Suðunesið með nærveru sinni. Fyrsta braut heitir Æðukolla, önnur Kría, þriðja Svanur, fjórða Lóa, fimmta Stelkur, sjötta Grágæs, sjöunda Margæs, áttunda Stokkönd og níunda Tjaldur.“

Heimild: nkgolf.is