Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 29. 2013 | 12:00

Golfbækur: Ný bók um golfkennara Jack Nicklaus – Jack Grout

Fyrsta golfkennslustund Dick Grout átti sér stað 1963. Hann var 10 ára og var að leika sér í golfi með Jack Nicklaus í La Gorce Country Club á Miami Beach í Flórída.

„Ég var á u.þ.b. 3. eða 4. holu. Ég náði að setja niður langt pútt,” rifjaði Grout upp. „Ég er bara lítill krakki. Jack lítur á mig og spyr mig: „Hvað ertu að hugsa um þegar þú púttar?” Nú þið vitið hvað sagt er: reynið að pútta eins og krakkar þar sem hugur þeirra er ekki þjakaður af óþarfa. Ég sagði honum að ég hefði valið línu og reynt að setja niður. Þannig að þarna er Jack Nicklaus að spyrja mig um púttið mitt. Ég hugsa að hægt sé að segja að ég hafi kennt honum pínulítið.”

Grout hlær að minningunni. Hann á margar af þeim þegar kemur að Nicklaus, þar sem pabbi hans var Jack Grout, sem var golfkennari Nicklaus til margra ára. Grout yngri er í dag sjálfur golfkennari í Greenville Suður-Karólínu og var það barna Grout eldri sem mestan áhugann hafði á golfi.  Alla ævi töluðu þeir feðgar um feril þess eldri, golfleikinn og jú Gullna Björninn (Jack Nicklaus – frægasta nemanda Grout eldri).

Grout yngri hefir nú notfært sér þessar upplýsingar.  Í þessari viku kannski einmitt vegna þess að í þessari viku fer Memorial mót Nicklaus fram kom út bókin „Jack Grout – A Legacy in Golf” sem Dick Grout skrifaði með aðstoð fyrrum blaðamannsins Bill Winter. Hægt er að kaupa bókina á Amazon.com, BarnesandNoble.com eða hjá okkur hér á Íslandi fara í bókaverslun og panta hana erlendis frá (þar sem hún er ekki til í íslenskri þýðingu…. enn sem komið er).

„Útgáfan hvarflaði að mér…. þar sem ég fylgdist svo náið með pabba í gegnum árin. Hann gerði svo margt í lífinu,  það var svo mikið sem hann fékk áorkað,” sagði Grout. „Ég vildi fylla í eyðurnar og bæta við golfsöguna. Fyrir utan að vera golfkennari Jack Nicklaus var hann svo margt annað. Pabbi var 40 ára þegar hann byrjaði að kenna Jack [1950].  Líf hans hófst ekki við það að ganga í Scioto Country Club.“

Það er þess vegna sem fyrir utan það að minnst er á Nicklaus stuttlega í inngangi þá er ekkert fjallað um hann fyrr en á bls. 161 í þessari 270 blaðsíðna bók. Áður en þeirri síðu er náð grípur Grout tækifærið til þess að sýna lesendum aðra hlið á upphafi atvinnumannsgolfs. Áður en hann varð golfkennari og lærimeistari Nicklaus var Jack Grout kylfusveinn (þegar hann var 12 ára bar hann m.a. poka Walter Hagen í móti í Oklahoma) og eins spilaði hann á túrnum gegn Ben Hogan. Það eru margar litríkar sögur sem hann heyrði hjá föður sínum.

Nicklaus skrifar innganginn að bókinni. Raymond Floyd, sem einnig græddi á kennslu Grout (og sem er heiðursþátttakandi í Memorial mótinu) skrifaði eftirorð.

„Pabbi var auðmjúkur maður. Hann talaði ekki mikið um sjálfan sig,” segir Dick Grout. „Hann var rólegur, jafnvel svolítið feiminn, en ég lagðist á hann og hann sagði mér þessar sögur. Það eru hlutir í bókinni sem jafnvel bróðir og tvær systur vita ekkert um. Ég var með heilu síðurnar af sögum um hann og ég vona að með því að segja söguna sé ég að veita honum þá viðurkenningu sem hann á skilið.”

Þetta þýðir að hann kemur vel til greina að hljóta inngöngu í frægðarhöll kylfinga. En hvaða viðurkenning sem er, er skref í rétta átt.

„Það er mér undrunarefni að hann (pabbi) sé ekki í frægðarhöllinni,” segir Grout yngri. „Hann er ekki einu sinni í golffrægðarhöll Ohio. Ekki í frægðarhöll Suður-Flórída. Jafnvel ekki í frægðarhöll heimssamtaka golfkennara. Maður fer að hugsa að þessar hallir séu kannski ekki það sem þeim er ætlað að vera. “

„Til þess að gera langa sögu stutta,” bætti Grout við. „Ég vildi bara fylla inn í eyðurnar um líf pabba. Áhrif hans á golfleikinn er virkilega aðdáunarverð og spannar hálfa öld. Ég efast um að margir viti um það. “   Þar til nú