Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 20. 2012 | 13:00

Golf: Þeir sem byrja hætta aldrei

Nú fyrir jólin kom út glæsilegt 800 bls. ritverk þeirra Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur, Golf á Íslandi, í tveimur bindum, í tilefni af 70 ára afmæli Golfsambands Íslands. Í verkinu eru m.a. margar skemmtiegar sögur og frásagnir dagblaða af kylfingum allt frá því fyrsti golfklúbburinn var stofnaður hér á landi, 1935. Golf á Íslandi fæst í öllum helstu bókabúðum og er vonandi að sem flestir kylfingar fái þetta eigulega ritverk í jólapakkann!!!

Hér fer skemmtilegt brot úr bókinni þar sem Dr. med Halldór Hansen er í viðtali við Morgunblaðið 7. maí 1939:

„- Og hvaða íþróttir álítið þér heppilegastar?

– Tvímælalaust allar útiíþróttir fyrst og fremst. Þær eru án efa heilsusamlegastar. Af útiíþróttunum skal ég sérstaklega nefna golfíþróttina því það er íþrótt, sem óhætt er að iðka án nokkurrar hættu fyrir heilsuna. Golfið þjálfar allan líkamann jafnt og hæfir öllum jafnt, ungum sem gömulum, veikluðum sem hraustum.

Auk þess má segja, að golfíþróttin hafi þann eiginleika fram yfir margar aðrar íþróttir, að hún er einstaklega aðlaðandi og skemmtileg. Menn gleyma öllum áhyggjum daglega lífsins meðan þeir leika golf og þess vegna er mikil hvíld í að leika þá íþrótt. Og vegna þessa og margs annars nenna menn svo vel að iðka golf, enda hefir það sannast að menn sem einu sinni byrja að iðka golf og komast eitthvað inn í þá íþrótt hætta aldrei.

Golf á Íslandi bls. 21.