Andri Þór Björnsson, GR. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 20. 2015 | 20:00

Golf meðal keppnisgreina á Smáþjóðaleikum í fyrsta sinn – Á Korpu 1.-6. júní n.k.

Golf verður í fyrsta sinn á keppnisdagskrá Smáþjóðaleikanna en leikarnir fara fram í 16. sinn í Reykjavík dagana 1.– 6. júní. Leikið verður á Korpúlfsstaðavelli og verður keppt í liða – og einstaklingskeppni.

Smáþjóðaleikarnir voru fyrst haldnir í San Marinó árið 1985 en leikarnir hafa einu sinni áður farið fram á Íslandi – árið 1997. Alls taka 9 þjóðir þátt á Smáþjóðaleikunum en auk Íslands eru það Lúxemborg, Andorra, Malta, Liechtenstein, San Marinó, Kýpur, Mónakó og Svartfjallaland.

Landslið Íslands verða þannig skipuð á Smáþjóðaleikunum:
Karlar: Kristján Þór Einarsson (Golfklúbbur Mosfellsbæjar), Haraldur Franklín Magnús (Golfklúbbur Reykjavíkur), Andri Þór Björnsson (Golfklúbbur Reykjavíkur).

Konur: Guðrún Brá Björgvinsdóttir (Golfklúbburinn Keilir), Sunna Víðisdóttir (Golfklúbbur Reykjavíkur), Karen Guðnadóttir (Golfklúbbur Suðurnesja).

Í golfkeppninni verða eftirtaldar þjóðir með lið; Andorra, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marinó og Ísland. Karlaliðin verða alls sjö en kvennaliðin fjögur.

„Smáþjóðaleikarnir eru mjög spennandi verkefni fyrir okkar kylfinga. Það verður skemmtilegt fyrir þá að vera hluti af stórum hópi íslenskra afreksíþróttamanna og keppa á leikunum. Þar sem erum að keppa í fyrsta sinn á þessu móti rennum við nokkuð blint í sjóinn hvað varðar styrkleika hinna þjóðanna. Okkar lið verður vel skipað og við stefnum að sjálfsögðu á sigur, ekkert annað kemur til greina,” sagði Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari.

Alls verður keppt í 10 keppnisgreinum á leikunum en golf og áhaldafimleikar eru nýjar greinar. Keppt verður í eftirfarandi greinum: Áhaldafimleikar, blak/strandblak, borðtennis, frjálsar íþróttir, golf, júdó, körfuknattleikur, skotíþróttir, sund og tennis.