Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 27. 2013 | 19:15

Golf Iceland á stærstu golfferðasýningu heims

Golf Iceland tók nú í nóvember þátt í stærstu golfferðasýningu heims sem haldinn er árlega, IGTM. Sýningin var að þessu sinni  haldin 11.-14. nóvember í Barcelona, á Spáni.

Um 1200 manns frá um 60 löndum tóku þátt í ár, seljendur golferða , kaupendur golfferða svo og fjölmiðlamenn,sem fjalla um golf.

Golf Iceland tók nú þátt í sýningunni í fjórða sinn. Við komum þarna á framfæri við kaupendur á fjölmörgum fundum upplýsingum um meðlimi samtakanna Golf Iceland svo og almennum upplýsingum um Ísland og golf almennt á Íslandi. Þá var dreift efni til fjölmiðlafólks og þeim veittar upplýsingar á fundum.

Þá voru á sýningunni haldnir fyrirlestar um ýmislegt sem tengist  golfferðamennsku og ýmsar niðurstöður kannana birtar um ferðahegðun kylfinga, eyðslu og fleira eftir markaðssvæðum. Þar kom m.a. fram að um 10% aukning hafi verið í sölu á golferðalögum árinu 2012 samanborið við árið 2011. Þá er ljóst að auking verður einnig á árinu 2013. Hér á Íslandi er t.d. talið að auking erlendra kylfinga hafi verið a.m.k. 15% á árinu og einstakir vellir hafa notið allt að 30% aukningar.

Þessi hluti ferðaþjónustunnar hefur vaxið mikið sérstaklega á síðustu 10 árum og nú er talið að í Evrópu velti golfferðamennska um 260 milljörðum kr. á hverju ári.