Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 21. 2016 | 15:00

Nýtt!!! Golfvellir á Íslandi: Kirkjubólsvöllur í Sandgerði

Golf 1 mun nú í sumar kynna golfvelli á Íslandi og verður byrjað á að kynna Kirkjubólsvöll í Sandgerði.

Völlurinn er mörgum kylfingnum að góðu kunnur. Hann er einn af fáum völlum á Íslandi, sem er opinn mestallt árið – jafnvel yfir vetrartímann og að sjálfsögðu meðal fyrstu, sem opnar inn á sumarflatir á vorin.

Kirkjuból er sögustaður og á golfvellinum er bæði gamli Kirkjubólsbærinn (Gamlaból) og garðar, sem öllum var skylt að reisa á Suðurnesjum á öldum áður og má sjá víða um völlinn og eru verndaðir og á minjaskrá.

Á vellinum þar sem kylfingar leika sér hafa einnig ýmsir merkilegir atburðir í Íslandsssögunni átt sér stað og er klúbburinn að vekja athygli kylfinga á því með flottum skiltum, sem reist hafa verið við nánast 3. hvern teig og gaman er að kynna sér.

T.a.m. árið 1433 gerðist það að Magnús nokkur kærmeistari Skálholtsbiskups bað dóttur, Vigfúsar hirðstjóra Hólm, Margrétar, sem bjó á höfðingssetrinu Kirkjubóli, en fékk hryggbrot. Reiddist Magnús fór með hópi manna, þ.e. sveinum úr lífvarðasveit Jóns Gerrekssonar, Skálhóltsbiskups og ákvað að brenna Margréti inni á Kirkjubóli, en með þessu vildi Magnús hefna fyrir niðurlægingu sína. Margrét var þó eina manneskjan sem komst úr eldinum; komst á þreveturt trippi og gat flúið. Margrét, sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum.

Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum.

Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans, myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý.  Kirkjubólsvöllur skipar því ávallt sérstakan sess í hugum Norðanmanna og er þeim kær!

Danska konungsveldinu tókst að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Kirkjubólsvöllur verður nú kynntur hér á Golf 1, fyrstur golfvallanna 62 á Íslandi næstu daga,  3 holur í hvert sinn.

Heimild: Heimasíða Sandgerðisbæjar