Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 29. 2012 | 13:00

Golf á Íslandi: Læknar kynntu golfíþróttina fyrstir fyrir Íslendingum

Snemmsumars 1935 mátti sjá menn með torkennilegan búnað á ferð í Reykjavík. Þeir báru með sér poka og upp úr þeim stóð eitthvað sem tilsýndar líktist hrífusköftum eða prikum.  Og leið þessara manna lá til sama staðar. Þeir voru á ferð inn að Laugum – þó ekki til að fara þar í sund eða þvo þvotta eins og flestir aðrir heldur til að iðka íþrótt, sem fæstir bæjarbúar kunnu deili á.  Þar vippuðu menn sér inn fyrir girðingu, gengu fram og til baka og sveilfuðu tólum sínum.  Þeir virtust hafa gaman af sem sást best á því að þeir komu aftur og aftur sömu erinda.“

Svona hefst 800 bls. verk höfundanna Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur Golf á Íslandi. Verkið er í 2 bindum – í hinu fyrra er golfsögunni á Íslandi gerð skil í 9 ársskiptum, skemmtilega myndskreyttum köflum frá árinu 1935 og til dagsins í dag.  Frosta B. Eiðssyni myndritstjóra hefir virklega farist verk sitt vel úr höndum, enda mikill kunnáttumaður á ferð þar.

Í seinna bindinu er sjónum beint að öllum golfklúbbum landsins og golfvalla þeirra. Ritverkið er gefið út í tilefni 70 ára afmælis GSÍ 14. ágúst í ár.

Í fyrsta kaflanum kemur m.a. fram að það hafi verið íslenskir læknar, sem fyrstir kynntu golfíþróttina fyrir löndum sínum.  Í fararbroddi þar voru læknarnir Valtýr Albertsson og Gunnlaugur Einarsson.

Valtýr Albertsson (t.v) og Gunnlaugur Einarsson (t.h.). Mynd: golfmyndir.smugmug.com

Þeir kynntust golfi meðan þeir voru í námi erlendis of fluttu með sér heim.

Golf á Íslandi er virkilega skemmtilegt aflestrar og þessi staðreynd að læknastéttin hafi verið hvað duglegust að kynna golfið fyrir landanum aðeins ein af fjölmörgum söguperlum, sem ekki mega falla í gleymskunnar dá.

Þess mætti geta að fyrsta íslenska konan til að gegna formennsku í golfklúbb var einmitt Ragnheiður Guðmundsdóttir, læknir.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, læknir.

Margir læknar eru enn í dag meðal ötulustu iðkenda golfíþróttarinnar hérlendis og mætti þar sem dæmi nefna: Ásgerði Sverrisdóttur, Baldur Tuma Baldursson, Börk Aðalsteinsson, Einar Einarsson, Guðlaug B. Sveinsson, Guðmund Arason, Geir Friðgeirsson, Gunnar Sigurðsson, Hrafnkel Óskarsson, Jóhann Heiðar Jóhannsson, Jón Þránd Steinsson, Ólaf Z. Ólafsson, Reyni Þorsteinsson, Stein Auðunn Jónsson, Tómas Zoéga, Þorbjörn Guðjónsson, Þórhildi Sigtryggsdóttur og Þráinn Rósmundsson og þá eru aðeins fáeinir góðir taldir  (18 eins og hæfir í golfinu 🙂 )

Golf á Íslandi er vegleg gjöf, sem á svo sannarlega erindi í jólapakka sérhvers kylfings!