Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2012 | 14:00

GO: Viðtal við Svavar Geir Svavarsson einn af 3 aðstandendum nýs golfhermis í Kauptúni

Þegar úti er veður vont og ekkert hægt að spila golf er gott að vita til þess að það er samt hægt að vera í golfi – þ.e. í golfhermi, þar sem boðið er upp á hringi á Carnoustie, Pebble Beach, Augusta National og allt í allt á 100 draumagolfvöllum. Það er tilvalið að halda golfsveiflunni við fyrir vorið 2013, sem nálgast óðum. Hér á eftir fer viðtal við Svavar Geir Svavarsson, GO, einn af 3 aðstandendum nýs golfhermis í Kauptúni:

1. Hvað eruð þið að bjóða upp á hér í Kauptúni, Svavar?  Golfklúbburinn Oddur er hér með stórgóða aðstöðu fyrir kylfinga. Við sem sjáum um þetta fyrir klúbbinn erum komnir með einn glæsilegan golfhermi í gang hérna en stefnum að því að í gangi verði tveir golfhermar fyrir áramótin. Svo býður þessi aðstaða okkar upp á 5 góða bása þar sem slegið er um 10 metra að neti, verið er að setja upp um 100 fm púttvöll sem verður tilbúinn um áramótin. Svo er veitingasala með léttar veitingar og kaffi eins og vera ber þegar fólk kemur saman á góðum stað. Við vonumst bara til að þetta geti verið almenn miðstöð allra kylfinga óháð klúbbi, allir eru velkomnir.

Golfhermirinn er í golfaðstöðu Golfklúbbsins Odds í Kauptúni. Mynd: Golf 1

2. Hvert er þá gjaldið fyrir að nýta sér það sem boðið er upp á? Í golfherminn erum við að rukka 3000 kr. á klst svona til að byrja með en við áætlum að gjaldið muni hækka eftir áramótin, svo verður einhver sveifla í gjaldskránni eftir hvenær tíma dagsins hermirinn er leigður. Inn í aðstöðuna sjálfa kostar stakt skipti 500 kr. og innifalið í því er að slá í netin og er boltanotkun þar ótakmörkuð, svo geta allir nýtt sér púttvöllinn. Í síðasta ári var boðið upp á klippikort í aðstöðuna og þau munu eflaust verða í boði áfram og þá lækkar gjaldið fyrir hvert skipti í um 400 kr.

3. Hverrar tegundar er golfhermarnir? Hann eða þeir eru frá ProTee-United sem eru eitt af leiðandi fyrirtækjunum í framleiðslu á golfhermum. Þetta er nýjasta útgáfan af herminumm og þeir eru alltaf að þróa vöruna og betrum bæta hana, nýlega bættust við 9 vellir og við sjáum alltaf smá framþróun við hverja uppfærslu.

Golfkennsla var á fullu þegar Golf1 mætti í Kauptún. Hér er verið að hita upp fyrir tíma hjá Phill. Mynd: Golf 1

4. Hversu marga golfvelli býður golfhermirinn upp á? Þeir eru um 100 núna eftir síðustu uppfærslu hjá okkur ásamt því að  einnig er  boðið  upp á  æfingasvæði af ýmsum toga.

5. Hver er munurinn á þessum hermi og öðrum golfhermum? Eins og við sjáum þetta þá er munurinn mikill á því sem er í boði hérna heima og þar teljum við okkur við með bestu græjuna. Þessi hermir býður upp á þrívíddar grafík, horft er á boltaflugið frá ýmsum sjónarhornum, engin bið milli hola, nákvæmar upplýsingar koma á skjáinn eftir hvert högg þar sem hægt er að greina sveifluna, það eru tvær háhraða myndavélar og mikill fjöldi skynjara í mottunni sem slegið er af og þannig mætti eflaust lengi telja upp en við erum á því að þeir sem prófa þetta sjái muninn um leið.

Svavar Geir Svavarsson, GO. Mynd: Golf 1.

6. Er mikil ásókn í golfhermanna? Við erum mjög ánægðir það sem af er, við erum alveg vissir um að þessir hermar muni auglýsa sig mikið sjálfiir á orðspori einu saman, græjan er það góð. Nú þegar er farið að festa tíma í herminn og vissir dagar strax fastir fram á vorið.

7. Er jafnmikil ásókn kvenkylfinga sem karlanna í golfherminn? Það verður að viðurkennast að það eru fleirri karlar sem sækja í þetta hjá okkur en vissulega hafa konurnar látið sjá sig hér og við vonumst að sjálfsögðu til að þær komi hérna í meira mæli, þetta er á allann hátt fyrir bæði kyn, unga sem aldna. Golfhermirnn býður á flestum völlum upp á þrjá til fimm teiga þannig að öllum er kleift að spreyta sig og upplifunin getur verið jöfn og skemmtileg.

Þegar Golf1 mætti á staðinn var Phill Hunter golfkennari MP Golf Academy með golftíma, í inniaðstöðunni í Kauptúni. Mynd: Golf1

8. Er á döfinni að setja upp mót – hvenær er ráðgert að vera með þau? Við áætlum að vera með mót í vetur og horfum í dag á helgarnar í því sambandi að mestu, formið er í vinnslu en við munum auglýsa það þegar ákvörðun liggur fyrir.

9. Hverjir eru það sem eru með golfhermana? Í dag erum það við félagarnir Nikki, Jón Ævarr og Svavar, við sjáum um að halda húsinu opnu og mæta þörfum þeirra sem vilja nýta sér aðstöðuna.

Nikki, einn aðstandenda Golfhermisins í Kauptúni. Mynd: Golf1

10. Hvernig á að bera sig að ef maður vill komast í golfherminn til ykkar og hver er opnunartíminn? Það er best að hringja í okkur Svavar 8215401, Jón Ævarr 8924366 og Nikki í 8977676 til að panta í herminn. Opnunartíminn er aðeins frjálslegur núna í desember en það er alltaf einhver okkar þarna frá morgni til kvölds flesta daga, eftir áramótin verður svo kominn fastur opnunartími sem ætti að henta öllum. Þess má alveg geta að hægt er að panta golfherminn þrátt fyrir að það sé ekki á auglýstum opnunartíma við erum mjög viljugir að hleypa fólki inn.

Þess mætti að lokum geta að Golfhermirinn í Kauptúni er kominn á facebook og óskar að sjálfsögðu eftir sem flestum vinum af öllu landinu!!! Til þess að komast á facebook síðu Golfhermisins í Kauptúni SMELLIÐ HÉR