Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 19. 2013 | 07:00

GN: Árni Guðjónsson og Brynja Garðarsdóttir hlutu Starfsmerki UÍA

Á ársþingi UÍÁ um helgina var Árni Guðjónsson „yfirsmiður“ Golfklúbbs Norðfjarðar sæmdur Starfsmerki UÍA. Árni er mjög vel að þessum heiðri kominn, enda drifkrafturinn í öllu uppbygingarstarfi GN frá því innrétting golfskálans hófst á haustdögum 1998. Hann hefur síðan stjórnað öllum byggingarframkvæmdum klúbbsins – innrétting golfskálsns, bygging véla- og áhaldageymslu, smíði palls við golfskálann, smíði og uppsetning á aðstöðu við æfingasvæðið og nú í vetur breyting á golfskálanum að innan. Öllu þessu hefur hann sinnt af áhuga og dugnaði í sjálfboðavinnu, auðvitað í samstarfi við aðra klúbbfélaga.

Árni var á árinu 2005 sæmdur silfurmerki GSÍ fyrir störf sín í þágu klúbbsins.

Allir eiga þeir Árni og félagar ómældar þakkir skildar frá Golfklúbbi Norðfjarðar.

Golfskálinn á Grænanesvelli á Neskaupsstað.

Golfskálinn á Grænanesvelli á Neskaupsstað.

Alls voru 7 Norðfirðingar auk Árna sæmdir Starfsmerki UÍA þ.e.:

Björgúlfur Halldórsson, Þrótti
Bubbi hefur verið formaður Þróttar um áraraðir. Hann kemur úr knattspyrnuhreyfingunni þar sem hann hefur meðal annars sinnt dæmt lengi sjálfur auk þess sem styðja við dómara í dag sem eftirlitsmaður.

Brynja Garðarsdóttir, Golfklúbbi Norðfjarðar
Brynja hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Golfklúbbinn og setið þar í nefndum og stjórnum, meðal annars mótanefnd. Hún hefur verið sérstaklega áberandi í kringum kvenna- og gleðimót klúbbsins þar sem hið árlega Hefðameyjamót ber hvað hæst.

Eysteinn Þór Kristinsson, Þrótti:
Eysteinn, sem er þingritari hér í dag og það ekki í fyrsta sinn á UÍA þingi, hefur verið lengi í aðalstjórn Þróttar og haldið þar utan um fjármálin. Eysteinn hefur einnig verið duglegur innan knattspyrnudeildarinnar, sem þjálfari í yngri flokkum og dómari.

Helga Skúladóttir, Hestamannafélaginu Blæ
Helga hefur lengi unnið óeigingjart starf í þágu félagsins. Hún sat í stjórn þess en hefur haldið áfram að starfa fyrir félagið eftir að hún hætti þar og hefur alltaf verið tilbúin að hjálpa þegar þess hefur verið þörf.

Jenny Jörgensen, Þrótti
Skíðamamman – með stóru S-i. Hún hefur starfað við öll skíðamót sem haldin hafa verið í Oddsskarði árum saman og fylgt sínum börnum og annarra á mót annars staðar. Heimili hennar hefur alltaf staðið íþróttafólki opnu, til dæmis í gistingu og mat, hvort sem um er að ræða mót á skíðum eða í öðrum greinum.

Karl Rúnar Róbertsson, Þrótti
Karl var vakinn og sofinn yfir skíðaiðkun í Neskaupstað meðan hann var formaður skíðadeildar Þróttar. Hann starfar enn með skíðafólki og situr í mótanefnd Skíðafélags Fjarðabyggðar. Þá er hann með dómararéttindi í blaki og hefur verið í því starfi nú í morgun.

Vilberg Einarsson, Hestamannafélaginu Blæ
Vilberg var formaður Blæs um árabil. Hann hefur unnið óhemjumikið fyrir félagið og verið duglegur að styðja við þá sem eru að stíga sín fyrstu skref fyrir félagið. Hann hefur skotið skjólshúsi yfir hesta og menn sem þurft hefur að hýsa í tengslum við félagsstarfið.

Heimild: Heimasíða GN á golf.is (að hluta) og heimasíða UÍA (að hluta).