Gleðilegt nýtt ár 2019!
Golf 1 óskar lesendum sínum svo og öllum kylfingum og landsmönnum nær og fjær gleðilegs nýs árs 2019, með mörgum gleðistundum í golfi á komandi ári.
Golf 1 hefir nú verið starfandi í rúma 87 mánuði, þ.e. 7 ár , 3 mánuði og 6 daga og hafa á þeim tíma birtst um 20.100 greinar, en þar af voru um 1800 skrifaðar á s.l. ári, 2018 sem þýðir u.þ.b. 5 greinar um golf að meðaltali á hverjum einasta degi 2018. Stefnt verður að því að auka greinaskrif á næsta ári.
Kylfingar innanlands, sem og vaxandi fjöldi erlendra kylfinga hafa tekið þessum yngsta golffréttavef Íslands framúrskarandi vel og umferð um vefinn ekkert nema aukist frá því hann hóf starfsemi 25. september 2011.
Á árinu var haldið áfram að skrifa greinar um Ísland, íslenskt golf og það sem íslenskt er á ensku og þýsku. Golf 1 hefir nokkra sérstöðu, þar sem hann er eini golfvefurinn í heiminum , sem skrifar á ensku og þýsku um íslenskt golf. Einnig er stefnt því að auka skrifin á þessum hluta Golf 1 á komandi ári. Þess ber að geta að á sama tíma og skrifað hefir verið á ensku og þýsku á Golf 1 um íslenskt golf, hefir erlendum golfferðamönnum fjölgað, sem sækja Ísland og íslenska golfvelli heim.
Nokkra gleði vekur það jafnræði sem er í lesendahóp Golf 1, þar sem karlkylfingar eru þó enn aðeins í meirihluta lesenda eða 60% á móti 40% kvenkylfinga og er það óbreytt frá síðasta ári. Þessi prósentutala mætti gjarna endurspeglast í þátttöku kvenkylfinga í mótum sem og í aukinni þátttöku ungra stelpna í golfi. E.t.v. stuðlar jafnræði í umfjöllun um golfleik beggja kynja að því að áhugi kvenna á þátttöku í golfi glæðist og eykst. Ábyrgð fjölmiðla er þar mikil.
Þegar farið er yfir golfárið 2018 er það sem einkennir fréttaflutning Golf 1 mikil áhersla á innlent golf og innlenda kylfinga, e.t.v. meira en mörg undanfarin ár, sem Golf 1 hefir verið starfandi. Enda er af nógu að taka.
Það sem ber hæst á golfárinu sem er að líða er frammistaða Golflandsliðsins okkar, þeirra Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, GR; Valdísar Þóru Jónsdóttur, GL; Axels Bóassonar, GK og Birgis Leifs Hafþórssonar, GKG, sem urðu Evrópumeistarar í blandaðri keppni í Skotandi sl. sumar; auk þess sem Axel og Birgir tóku silfrið í tvímenningi. Það er ekki að undra að Golflandsliðið hafi síðan staðið uppi sem lið ársins 2018 á árlegri verðlaunaíþróttahátíð íþróttafréttamanna.

Valdis Jonsdottir, Olafia Kristinsdottir Axel Boasson og Birgir Hafthorsson með gullið
Meðal þess sem hæst ber er einnig að Haraldur Franklín Magnús, GR, sem varð fyrsti íslenski karlkylfingurinn til þess að spila í risamóti sl. sumar, þ.e. á Opna breska. Það kom því ekki á óvart að hann skyldi vera tilnefndur til heiðurstitilsins Íþróttamaður ársins 2018, en þar varð Haraldur í 7.-8. sæti að þessu sinni.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, spilaði í 7. kvenrisamóti sínu og er hún sá kylfingur sem spilað hefir í flestum risamótum, auk þess sem hún varð fyrsti Íslendingurinn til þess að fara holu í höggi á risamóti, en það gerðist á 1. hring ANA Inspiration risamótinu 2018. Árið 2018 er þó eflaust nokkuð vonbrigðaár fyrir Ólafíu Þórunni, þar sem ekki gekk allt upp sem vonast var eftir, sem m.a. leiddi til missis fastra spilaréttinda á bestu kvenmótaröð heims, LPGA, þó takmarkaður spilaréttur sé enn fyrir hendi á mótaröðinni, 2019, sem felur í sér tækifæri, sem hægt er að byggja á.
Haraldur Franklín Magnús, GR sem og Andri Þór Björnsson, GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR spiluðu á Nordic League mótaröðinni oft með góðum árangri. Axel Bóasson, GK lék einnig í nokkrum mótum mótaraðarinnar en var í fyrsta sinn á árinu sem er að líða að reyna fyrir sér á Áskorendamótaröð Evrópu sem er 2. deildin í Evrópu og oft stökkpallur inn á Evrópumótaröðina, þar sem Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, lék í auknum mæli 2018.
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, kylfingur á LET og LET Access var einnig tilnefnd til íþróttamanns ársins og náði á árinu sem er að líða besta árangri íslensks kylfings á stórri mótaröð, LET, þegar hún landaði bronsinu á Ladies Classic Bonville mótinu í Ástralíu, dagana 22.-25. febrúar 2018 og jafnaði þar með frábæran árangur sinn frá árinu áður (í nóvember 2017) þegar náði hún 3. sætinu á Sanya Open í Kína. Glæsilegur kylfingur þar sem Valdís Þóra er annars vegar!
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, og Berglind Björnsdóttir, GR reyndu fyrir sér úrtökumóti fyrir LET og munaði sáralitlu að Guðrún Brá næði inn á mótaröðina, en hún náði að komast á 2. stigið og síðan spila í lokaúrtökumótinu. Það er aðeins tímaspursmál hvenær við eignumst 4. og 5. íslensku konunarnar á mótaröð þeirra bestu í Evrópu! Guðrúnu Brá hlotnaðist jafnframt sá heiður að vera valin í lið Evrópu í Patsy Hankins mótinu, sem er mót með Solheim Cup fyrirkomulagi nema hvað viðureigin liðs Evrópu er við úrvalslið Asíu.
Golf 1 fylgdist nú, sem á undanförnum árum, með 19 íslenskum kylfingum, sem spila í bandaríska háskólagolfinu og er það mesta breidd kylfinga í bandaríska háskólagolfinu, sem íslenskur golffréttamiðill er að fylgjast með. Íslenskum kylfingum í bandarísku háskólagolfi fer jafnvel fjölgandi. Er til efs að nokkur þjóð eigi hlutfallslega jafnmarga kylfinga í bandarísku háskólagolfi miðað við höfðatölu.
Þeir kylfingar sem Golf 1 fylgist með eru í stafrófsröð: Arna Rún Kristjánsdóttir, GM, Grand Valley State University; Arnar Geir Hjartarsson, GSS, Missouri Valley; Birgir Björn Magnússon, GK, Bethany College, Kansas; Bjarki Pétursson, GB, Kent State; Björn Óskar Guðjónsson; GM, Louisiana Lafayette; Egill Ragnar Gunnarsson, GKG, Georgia State: Eva Karen Björnsdóttir, GR, University of Louisiana at Monroe; Gísli Sveinbergs, GK, Kent State; Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK, Elon; Helga Kristín Einarsdóttir, GK, Albany; Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, Eastern Kentucky; Rúnar Arnórsson, GK, University of Minnessota; Saga Traustadóttir, GR, Colorado State; Sigurlaug Rún Jónsdóttir, GK, Drake; Stefán Þór Bogason, GR; Florida Institute of Technology; Stefán Sigmundsson, GA, Bethany College, Kansas; Særós Eva Óskarsdóttir, GKG, Boston University, Tumi Kúld, GA, Western Carolina University Vikar Jónasson, GK, Southern Illinois University.
Kylfingarnir okkar í bandaríska háskólagolfinu eru svo sannarlega farnir að fylla 2. tuginn.
Stefna Golf 1 er óbreytt eftir sem áður verður leitast við að hafa umfjöllun Golf 1 bæði um karl- og kvenkylfinga; bæði afrekskylfinga og almenna kylfinga, öldunga, sem og hina yngri og hvað hina yngri snertir mun Golf 1 að sjálfsögðu, líkt og undanfarin ár vera áfram sterkur miðill í umfjöllun um glæsileg börn og ungmenni, sem eru innan íslenskrar golfhreyfingar. Eflaust eigum við fremur fyrr en síðar eftir að sjá mörg þeirra á helstu mótaröðum heims!!!
Golf 1 var 2018 með fréttir um öll meistaramót golfklúbba á Íslandi 2018, s.s. birtast mun í annál á nýársdag.
Kylfingar, íslenskir sem erlendir, virðast kunna að meta breidd í fréttaflutningi um golf. Hana mun Golf 1 reyna að færa sístækkandi hópi lesenda sinna.
Golf 1 mun ekki fara í nýársdagsfrí líkt og viðgékkst á fyrstu 6 starfsárum vefsins og munu nýjar golffréttir birtast strax á 1. degi nýs árs 2019.
Kærar þakkir fyrir frábærar viðtökur – Hafið það gott! – Komist öll slysalaust yfir ársskiptin með bestu óskum um heilbrigði og hamingju 2019.
Ragnheiður Jónsdóttir, ritstjóri Golf 1.
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024
