Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 24. 2011 | 18:00

Gleðileg Jól 2011!

Nú er sá tími hér á norðlægari slóðum sem sumum kylfingum finnst leiðinlegur. Birtuskilyrðin slæm, norðan byljir, snjór, haglél, slydda, snjófjúk – ekkert hægt að spila golf. Allir golfvellir á kafi í hvítu og veðrið líka þannig að ekki einu sinni er hægt að spila vetrargolf!

En þá koma jólin, hátíð ljóss og friðar, vonar og nýs lífs með tilheyrandi jólahlaðborðum og veislum, sem sumir golfklúbbar halda félögum sínum. Þó jólin í ár séu hálfgerð „vinnuveitendajól” þá fá flestir þó frí helgina og geta gert sér og sínum dagamun.

Það er mikilvægt að vera þakklátur, þakklátur fyrir allt sem okkur er gefið, samvistir við þá sem okkur þykir vænt um, vinina og kunningja sem við eigum og sendu jólakort eða kveðju eða glöddu okkur með einhverjum hætti (og auvitað líka þá sem gera eða gerðu það ekki), hlýjuna inn í húsunum og matinn sem við fáum að snæða.  Jafnvel samferðamennina, sem reyndust erfiðari í skauti, því þeir benda oftar en ekki á það sem bæta þarf úr eða breyta. Það er best að biðja fyrir þeim.

Það eru margir hérlendis, sem eiga um sárt að binda þessi jól t.d. vegna fátæktar, missis, einmanaleika, fjarveru ástvina, sjúkdóma, slysa eða einhvers, sem hér gleymist að telja. Mörgum finnst hreinlega engin jól vera. Fyrir þeim er beðið að Guð lini þjáningar þeirra…. að þeir skynji a.m.k. hátíðleik jólanna og geti glaðst yfir fæðingunni, fyrirheitinu að nýju upphafi og voninni um að allt geti breyst … líka í lífum þeirra. Jólin krefjast einskis, það þarf enga nýja klippingu, jólaföt, skó, gjafir eða allsnægtir matar og drykkjar til að eiga gleðileg jól. Það skiptir engu þótt úti gnauði snjóstormar, þegar friður jólanna yfirtekur allt kl. 18:00 í dag. Það sem skiptir máli er að umvefja þá, sem eru manni kærastir með kærleik.

Jólasveinarnir að Skútustöðum í Mývatnssveit. Mynd: Golf 1.

Á þessum tíma rifjast oft upp vinir sem gengnir eru; í mínu tilviki vinkona mín Kolbrún Ólafsdóttir, sem hefði orðið 40 ára í október s.l. – en móðir hennar Guðrún Ása, er mikill kylfingur í GR – Kolla hins vegar hafði engan áhuga á golfi – var ekki enn komin með bakteríuna en langaði til að prófa síðar. Hún kenndi mér að geyma aldrei til morguns það sem hægt er að gera í dag …

Aðrir sem gengnir eru, eru m.a. Hafþór Hafsteinsson, vinur minn, sem var nýbyrjaður í golfi, spilaði stundum á Bakkakotsvelli og hefði átt 46 ára afmæli 3. janúar í næsta mánuði; Birgir Björnsson, eðal FH-ingur og Keilismaður, sem lést á þessu ári og er sárt saknað og svo kannski aðeins fjarlægara fráfall Severiano Ballesteros, sem var átrúnaðargoð svo margra í golfinu, en hann dó 7. maí á þessu ári.

Það eru í raun forréttindi að vera kylfingur á Íslandi og hafa vonina um að spila á iðagrænum völlum vorsins 2012, hvort sem er hérlendis eða í mörgum skemmtilegra golfferða sem landinn er farinn að fara í svo þúsundum skiptir, fjarri öllu stríðsglamri,stórglæpum og náttúruhamförum úti í hinum stóra heimi.

Hjá okkur sem búum við frið er þessi árstími er  hinn ákjósanlegasti til að leggjast yfir golfkennslumyndbönd eða fallegar golfbækur eða til þess að fara á æfingasvæðið (a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu), setja hitalampann á og æfa sveifluna. Allir, hvar sem er, geta æft púttstrokuna og jafnvel wedgespilið. Þetta er mikilvægur tími fyrir kylfinga, að setja sér æfingamarkmið til þess að koma vel undan vetri. Heilsa upp á golfkennarann og láta þá taka sveifluna eða annað sem þarf að bæta úr í gegn.

Dimmasti kafli vetrarins er að baki og frá og með deginum í dag fer dag að lengja. Framundan er golfvorið 2012 með öllum sínum golfhringjum og mótum.

Golf1.is, sem fagnar 3 mánaða afmæli á morgun, óskar lesendum sínum árs og friðar með þökk fyrir frábærar viðtökur. Á morgun, verður jóladagur haldinn hátíðlegur hér á Golf1 og munu engar nýjar greinar birtast fyrr en árla morguns 26. desember.

Gleðileg jól, hafið það sem allra best og heillaríkt komandi golfár 2012!

Ragnheiður Jónsdóttir, ritstjóri Golf1.