Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 4. 2014 | 20:00

Glæsileg spilamennska Kristjáns Þórs tryggði honum sigur í Einvíginu á Nesinu

Í dag fór fram í 18. sinn árlega góðgerðamótið Einvígið á Nesinu.

Þátttakendur voru 10 og var keppnisformið shoot-out þannig að einn af öðrum týndi tölunni þannig að aðeins tveir kylfingar stóðu eftir uppi í lokinn Kristján Þór Einarsson, Íslandsmeistari í holukeppni 2014 og Hlynur Geir Hjartarson, klúbbmeistari Golfklúbbs Selfoss, 2014 en báðir sýndu snilldartakta á hringnum.

Golf 1 var á staðnum og má sjá myndaseríu frá mótinu með því að SMELLA HÉR: 

Kristján Þór Einarsson, sigurvegari Einvígisins á Nesinu 2014. Mynd: Golf 1

Kylfingar féllu út í eftirtalinni röð:

Á 1. holu Tinna Jóhannsdóttir GK Íslandsmeistari kvenna í holukeppni 2014.

Á 2. holu Helga Kristín Einarsdóttir NK Klúbbmeistari NK og Íslandsmeistari unglinga.

Á 3. holu Bjarki Pétursson GB Klúbbmeistari GB 2009-2013.

Á 4. holu Nökkvi Gunnarsson NK Sigurvegari opinna móta á Nesvellinum 2014.

Á 5. holu Þórður Rafn Gissurarson GR Atvinnumaður í golfi.

Á 6. holu Axel Bóasson GK Klúbmeistari GK 2014.

Á 7. holu Björgvin Sigurbergsson GK Marfaldur Íslandsmeistari.

Á 8. holu Ólafur Björn Loftsson NK Klúbbmeistari NK 2014.

Á 9. holu Hlynur Geir Hjartarson GOS Klúbbmeistari GOS 2014.

Einn eftir stóð Kristján Þór Einarsson GKJ Íslandsmeistari í holukeppni 2014 og tók við sigurbikarnum úr höndum Óla Inga, formanni Nesklúbbsins.

Einn eftirminnilegasti hluti mótsins átti sér stað á par-5 7. holunni, þar sem Hlynur Geir fékk frábæran örn og bolti Ólafs Björns fór í flaggstöngina, en af henni fyrir erni.  Eins átti Hlynur Geir glæsilegt  teighögg á 8. braut, en boltinn lenti u.þ.b. 2,5 metra frá flaggi og munaði hársbreidd að Hlynur setti niður 2. örn sinn í röð í mótinu,  en hann tryggði sér engu að síður góðan fugl og inn í úrslitin.

Hlynur Geir Hjartarson, GOS. Mynd: Golf 1

Hlynur Geir Hjartarson, GOS. Mynd: Golf 1

Á 9. holu, hins vegar, sigraði Kristján Þór með frábærum fugli en hann átti þar áður frábært vipp inn á flöt eftir að hafa yfirslegið hana.

Ótalin eru öll fallegu teighögg Kristáns Þórs á hringum og töfratilþrif hans með pútternum, en hreint augnkonfekt var að fylgjast með honum og óskiljanlegt með öllu að þessi frábæri kylfingur skuli ekki vera í karlalandsliði Íslands eða fleiri landsliðsverkefnum en raun ber vitni, þegar hann er að sigra í hverju mótinu á fætur öðru nú í sumar!

Kristján Þór er svo sannarlega vel að þessum fyrsta sigri sínum í Einvíginu á Nesinu kominn og óskar Golf 1 honum hér aftur innilega til hamingju með sigurinn!!!

Félagi einhverfra var afhent 1 milljón í mótslok.  Aðalstyrktaraðili mótsins var DHL

Hér í lokinn má sjá lista þeirra sem sigrað hafa í Einvíginu á Nesinu:

Sigurvegarar frá upphafi

1997      Björgvin Þorsteinsson.

1998      Ólöf María Jónsdóttir.

1999      Vilhjálmur Ingibergsson.

2000      Kristinn Árnason.

2001      Björgvin Sigurbergsson.

2002      Ólafur Már Sigurðsson.

2003      Ragnhildur Sigurðardóttir.

2004      Magnús Lárusson.

2005      Magnús Lárusson.

2006      Magnús Lárusson.

2007      Sigurpáll Geir Sveinsson.

2008      Heiðar Davíð Bragason.

2009      Björgvin Sigurbergsson.

2010      Birgir Leifur Hafþórsson.

2011      Nökkvi Gunnarsson.

2012      Þórður Rafn Gissurarson.

2013      Birgir Leifur Hafþórsson.

2014      Kristján Þór Einarsson.