Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 15. 2015 | 20:00

GL: Haldið upp á 50 ára afmæli Golfklúbbsins Leynis í dag

Golfklúbburinn Leynir hélt upp á 50 ára afmæli klúbbsins í dag. Félagsmenn fögnuðu tímamótunum með glæsilegri veislu í golfskálanum við Garðavöll á Akranesi. Við þetta tilefni voru tveir félagsmenn útnefndir heiðursfélagar en þeir eru Reynir Þorsteinsson og Guðmundur Valdimarsson.

thumbsCreator

Þórður Emil Ólafsson formaður Leynis afhenti heiðursviðurkenningarnar en Guðmundur Sigurbjörnsson, tók við viðurkenningunni fyrir hönd afa síns, sem var ekki á landinu.
Í ræðu Þórðar kom m.a. fram að Reynir hefur lagt mikið á vogarskálarnar í starfi Leynis allt frá því hann gerðist félagi árið 1976. Hann var lengi formaður klúbbsins, sat í framkvæmdanefnd um stækkun vallarins í 18 holur, og var drifkraftur í barna – og unglingastarfi klúbbsins eftir að hann hætti stjórnarstörfum.

Formaður sagði einnig frá því að Guðmundur hefur verið félagi í Leyni frá árinu 1979 og afreks hans í öldungakeppnum er athyglisverður. Guðmundur hefur m.a. fjórum sinnum fagnað Íslandsmeistartitlum í sínum aldursflokki og hann er margreyndur landsliðsmaður.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ í ræðustól á 50 ára afmæli GL

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ í ræðustól á 50 ára afmæli GL

Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands var viðstaddur í dag ásamt Herði Þorsteinssyni framkvæmdastjóra GSÍ. Haukur sendi Leynismönnum góðar kveðjur í ræðu sinni og afhenti klúbbnum gjöf að þessu tilefni. Haukur sagði m.a. að það væri tilhlökkun í herbúðum GSÍ að starfa með Leynismönnum á afmælisárinu þar sem að hápunktur keppnistímabilsins færi fram á Garðavelli í júlí, sjálft Íslandsmótið í golfi.

Regína Ástvaldsdóttir bæjarstjóri Akraness og Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis skrifuðu við þetta tilfefni undir framkvæmdasamning vegna Íslandsmótsins í golfi. Akraneskaupstaður mun styrkja Leyni á ýmsum sviðum vegna Íslandsmótsins – og má þar nefna í kynningarmálum og atburðum sem á að tengja við stórmótið. Leynir fær einnig 2 milljónir kr. frá Akraneskaupstað til framkvæmda vegna mótsins.

Jón Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri ÍA, flutti einnig góðar kveðjur fyrir hönd Íþróttabandalags Akraness og færði klúbbnum gjöf.
Það stendur ýmislegt til á afmælisárinu hjá Leyni. Á meðal þeirra viðburða sem verða á dagskrá er afmælismót, sem verður væntanlega fyrsta mót tímabilsins fyrir klúbbmeðlimi. Veglegt afmælisblað verður gefið út í maí. Afmælismót fer fram fyrir samstarfsaðila klúbbsins, forsvarsmenn klúbba og styrktaraðila þegar líður á sumarið og Íslandsmótið í golfi er hápunkturinn á afmælisárinu.

Golf 1 óskar Golfklúbbnum Leyni innilega til hamingju með öldina hálfu!

Heimild: golf.is